Laugardagur 27. september 2003

270. tbl. 7. árg.

Sagt var frá því í DV í gær að vændi hafi verið stundað með skipulögðum hætti á hótelum hér á landi. Stuðningsmenn þess að viðhalda banni við slíkri starfsemi, og jafnvel að herða á því banni, hljóta að draga fréttina í efa. Þeir hljóta að álíta að þar sem vændi á borð við það sem lýst er í fréttinni er bannað, geti það ekki átt sér stað. En bann við vændi hefur reyndar ekki meiri áhrif en að stinga höfðinu í sandinn til að forðast vandræði. Vændi hefur alla tíð verið stundað og verður án nokkurs vafa stundað á meðan mannskepnan er eins og hún er. Menn geta svo haft á því ýmsar skoðanir hversu æskilegt þetta er, en það breytir ekki þeirri staðreynd að það mun ekki takast að banna vændi, það mun einungis takast að ýta því undir yfirborðið. Og gallinn við að hafa vændi undir yfirborðinu en ekki uppi á því er augljós. Þeir sem starfa við vændi búa við mun lakari starfsskilyrði en ástæða er til. Þessir einstaklingar geta ekki leitað réttar síns með eðlilegum hætti ef á þeim er brotið og verða því ýmist að láta ranglæti yfir sig ganga eða beita óhefðbundnum aðferðum til að ná sínu fram. Þess vegna er líka hætta á að óæskilegir fylgikvillar geti fylgt þessari starfsemi þegar hún er undir yfirborðinu.

En þetta eru ekki einu rökin fyrir því að hætta að banna vændi. Það er líka réttlætismál að fólk fái að gera það sem það vill – þar með talið að starfa við það sem það vill – svo framarlega sem það brýtur ekki á rétti annarra. Og hvaða réttur annarra er í hættu við það að sumir kjósi vændi sem starfsvettvang? Er einhverjum ógnað með því? Brýtur sá sem selur slíka þjónustu á rétti einhvers annars? Er einhver neyddur til að kaupa þjónustuna? Svarið við öllu þessum spurningum er augljóslega neitandi. En jafnvel þeir sem fallast á það vilja sumir banna vændi af umhyggju fyrir seljanda þjónustunnar. Þeir halda því fram að vændiskonur – seljendurnir munu oftast vera kvenmenn – séu í raun afar óhamingjusamar í starfi og að ekki sé rétt að nokkur vilji í raun starfa við vændi. Þessi fullyrðing er afar vafasöm og ekki þarf annað en benda á fjölda dæma um fólk sem velur sér þennan starfsvettvang umfram annan til að sannfærast um að sumir telja þennan kost þann besta sem býðst. Það þýðir ekki að þeir séu allir alsælir í starfi sínu, en það á ekki heldur við um alla aðra sem vinna margvísleg önnur störf. Margir eru óánægðir í starfi en velja það engu að síður. Meint óánægja starfsmanna getur ekki verið ástæða til að banna tiltekna starfsgrein. Ef svo væri hlytu býsna margar atvinnugreinar að vera í hættu. Annað sem nefnt er til rökstuðnings banni við vændi er að vændiskonur séu stundum þvingaðar til starfsins. Ef sú er raunin er verið að tala um allt annan hlut en sölu á vændisþjónustu. Það að þvinga fólk til að starfa við vændi – eða eitthvað annað ef því er að skipta – er auðvitað skerðing á réttindum þess fólks og með engu móti réttlætanlegt, heldur þvert á móti glæpastarfsemi. Slík starfsemi kemur banni við vændi ekkert við og raunar má ætla að hún þrífist þeim mun betur sem vændið er meira undir yfirborðinu og ætti því frekar að vera röksemd gegn banninu en með því.