Þeir eru alltaf að færa sig upp á skaftið. Nú var sjávarútvegsnefnd Alþingis að senda Landssambandi smábátaeigenda harðort aðvörunarbréf vegna þess að nefndinni þótti sem í inngangi að grein í fréttabréfi Landssambandsins væri ekki fjallað um fiskveiðistjórnunarkerfið með nákvæmlega þeim hætti sem þessi opinbera nefnd vill að sé gert. Enda hefur ekki staðið á viðbrögðum. Blaðamannafélagið hefur bent á að hér séu opinberir aðilar í embættisnafni að reyna að hræða menn frá því að tjá sig um mál með nokkrum öðrum hætti en ríkjandi stjórnvöld vilja. Stjórnarandstaðan hefur krafist utandagskrárumræðna um málð eins og eðlilegt er. Pistlahöfundar útvarps og dagblaða eru rasandi. Hinn vandaði fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, Spegillinn, hefur ekki fjallað um annað í nokkra daga. Það er með öðrum orðum allt í uppnámi.
„Ja hérna hér“, hugsar nú kannski einhver, „þessu hef ég alveg misst af.“ En það væri þá ekki undarlegt því þessi frásögn er alröng. Sjávarútvegsnefnd alþingis hefur ekkert slíkt bréf sent og öll þessi frásögn er tilbúningur. En það er hins vegar ekki tilbúningur að opinber aðili hefur nýlega ávítað aðila úti í bæ fyrir að fjalla í frjálsu tímariti um mál með aðeins öðrum hætti en þessi opinberi aðili vill. Síðastliðinn föstudag greindi DV frá því að einn af embættismönnum Reykjavíkurborgar, Hildur Jónsdóttir að nafni, hefði skrifað Ungmennafélagi Íslands bréf og kvartað yfir því að í orðalagi í inngangi að viðtali einu í nýjasta tölublaði Skinfaxa, sem Ungmennafélagið gefur út, birtist „staðalímynd“ sem jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar sé andvíg. Og hvaða viðbrögð hefur þetta vakið? Opinber nefnd farin að setja ofan í tímarit úti í bæ fyrir að hafa röng viðhorf. Hvað segja nú pistlahöfundarnir, fréttaskýrendurnir og Blaðamannafélagið? Því er fljótsvarað. Ekki orð. Því nú er það rétttrúnaðurinn sem talar. Skinfaxi var staðinn að „gömlum staðalímyndum“, sem er svipaður glæpur og að nota „gildishlaðið orð“, og hver getur gert athugasemd við það að opinber embættismaður finni að því?
Það er svo fróðlegt að athuga hvaða ógnvænlegu orð það eru sem kalla á bréf frá embættismönnum Reykjavíkurborgar. Viðtal Skinfaxa er við konu sem rekur umboðsskrifstofu fyrirsætna og hefst á þessum háskalegu orðum: „Eins og marga unga drengi dreymir um að verða atvinnumenn í knattspyrnu þá dreymir margar ungar stúlkur um að verða fyrirsætur.“ Svona tal vill Reykjavíkurborg ekki hafa, það má víst ekki halda að það sé aðallega drengi sem dreymir um atvinnumennsku í knattspyrnu og einkum stúlkur sem langar til að hasla sér völl sem fyrirsætur. Þeir sem hugsa svoleiðis, þeir frá bréf frá embættismönnum Reykjavíkurborgar. Og svo vanir eru menn orðnir yfirgangi rétttrúnaðarins að enginn segir neitt. Sennilega er DV eini fjölmiðillinn sem segir frá þessu, hvað þá meir. Meira að segja minnihlutinn í borgarstjórn segir ekki orð. En hverjum kemur þetta svo sem á óvart. Á tímum þegar það er bannað að tala um tóbak nema til að vara við því, þarf þá nokkur að verða hissa þó embættismenn séu farnir að gera athugasemdir við þá sem missa það út úr sér að stelpur séu líklegri en strákar til að hella sér út í fyrirsætubransann?