Mánudagur 22. september 2003

265. tbl. 7. árg.

Í dag er frítt í strætisvagna fyrirtækisins Strætó bs. Þessi afsláttur sem nú er boðinn, 100%, virðist ríflegur, en er þó ekki svo ýkja frábrugðinn þeim afslætti sem boðinn er aðra daga. Staðreyndin er nefnilega sú að alla aðra daga er veittur um 60% afsláttur af fargjöldum strætisvagnanna. Þessi „afsláttur“ er þó ekki allur þar sem hann er séður, því skattgreiðendur, bæði innan vagns og utan, standa undir honum. Afslátturinn kemur með öðrum orðum ekki af himnum ofan og þeir milljarðar sem dælt er inn í svokallaðar almenningssamgöngur landsmanna nýtast ekki til að bæta þær samgöngur sem eru raunverulegar almenningssamgöngur, þ.e. umferð einkabíla almennings. Á sama tíma og hið opinbera styrkir óarðbærar samgöngur á borð við strætisvagna, leggur það þunga skatta vinsælustu samgöngutæki almennings, einkabílana.

Það að skattgreiðendur séu látnir greiða allan kostnað við rekstur Strætó bs. í dag á sér þá skýringu að í dag er hinn svokallaði bíllausi dagur. Dagurinn er auðvitað ekki bíllaus, enda kærir fólk sig ekki um að leggja bílum sínum, hvorki í Reykjavík né öðrum þeim borgum sem að nafninu til taka þátt í þessu átaki gegn einkabílnum. En um hvað snýst eiginlega þetta átak? Átakið snýst um baráttu gegn einu þarfasta tæki nútímans, einkabílnum, og gengur út á að reyna að draga úr notkun hans og vinsældum. Einkabílinn gerir fólki kleift að komast þangað sem það vill þegar það vill, en af einhverjum undarlegum ástæðum eru þeir menn til sem hafa horn í síðu þessa tækis og vilja frekar að fólk noti opinber niðurgreidd samgöngutæki en eigin bíla. Þessir menn leggja sig alla fram um að sannfæra fólk um að sá samgöngumáti sem það kýs sér sé óeðlilegur og jafnvel skaðlegur og að rétta aðferðin til að ferðast á milli staða sé að nota niðurgreiddar almenningssamgöngur.

Sá hugsunarháttur sem býr að baki þessu átaki gegn umferð einkabílsins kemur ekki aðeins fram í fyrirbærinu bíllausa deginum. Hann kemur einnig fram í því að andstæðingar einkabílsins vilja þrengja umferðaræðar eins og verða má. Þeir neita til dæmis að rýmka gatnamót og reyna að auka forréttindi opinberra strætisvagna í umferðinni á kostnað einkabílanna. Þeim hefur jafnvel dottið í hug að taka heilu akreinarnar eingöngu undir strætisvagna, svo þeir geti brunað þar framhjá öðrum, niðurgreiddir og mannlausir.