Þriðjudagur 23. september 2003

266. tbl. 7. árg.
„Hingað í sjónvarpið kom ég keyrandi. Ég nota mikið strætó og svo geng ég mikið. Ég er satt að segja sjaldnast á eigin bíl.“
 – Árni Þór Sigurðsson formaður samgöngunefndar Reykjavíkur í Kastljósi 16. september 2003.

Þ

Æ fleiri átta sig á kostum þess að vera satt að segja sjaldnast á eigin bíl.

egar Árni Þór Sigurðsson var spurður að því í Kastljósi á dögunum hvort hann hefði ekki gengið á undan með góðu fordæmi í miðri evrópskri samgönguviku og komið með strætó í Ríkissjónvarpið sagði hann auðvitað satt og rétt frá eins og góðum dreng sæmir. Hann kom akandi á hinum hræðilega einkabíl. Einkabílisminn leggst ekki aðeins á fólk sem vill komast í vinnuna, gera innkaupin eða sækja krakkana á tónlistaræfingu heldur einnig á borgarfulltrúa á leið í sjónvarpssal. Sýnir það alvarleika málsins.

Úr því sem komið var gat Árni heldur ekki stillt sig um að segja allan sannleikann. Eða því sem næst. Hann er „satt að segja sjaldnast á eigin bíl“. Satt að segja. Það getur líka staðið heima eins og bíllinn hans gerir oft. Því Árni Þór er ekki aðeins formaður samgöngunefndar og einn helsti andstæðingur „einkabílismans“ í borginni heldur einnig forseti borgarstjórnar. Því merka embætti fylgir ýmislegt. Eitt af því er bíll forseta borgarstjórnar. Þessi bíll er ekki bíllinn hans Árna Þórs og því er það alveg satt sem hann segir að hann er sjaldnast á eigin bíl. Bíllinn sem hann brunar á um borgina er í eigu borgarinnar.

Bílnum fylgir svo bílstjóri. Og líklega rétt að taka fram hér er ekki átt við gulu trukkana sem aka oft um bæinn með einn eða tvo farþega og að því er virðist einkabílstjóra heldur þýskan fólksbíl af betri sortinni. Með því að hafa bílstjóra með bílnum má líka ná nær tvöfalt meiri akstri út úr honum en ef forsetinn væri sjálfur að myndast við að aka honum og aldrei þyrfti að setja hann af og sækja svo aftur síðar.

Evrópsku samgönguvikunni lauk svo í gær með bíllausum degi. Hinn almenni maður var hvattur til þess af borgarstjórn Reykjavíkur að skilja nú bílinn sinn eftir heima. Árni Þór Sigurðsson gekk að sjálfsögðu á undan með góðu fordæmi í gær og skildi bílinn sinn eftir heima á hlaði.

Satt að segja var forsetabíllinn hins vegar tekinn til kostanna. Í gær brunaði helsti hvatamaður þess að venjulegt fólk skildi bílana eftir heima sjálfur um borgina í opinberri bifreið með einkabílstjóra.