Reykvíkingar hafa eignast nýtt og fullkomið tónlistarhús, Ými við Skógarhlíð. Ýmir er fyrsta húsið í Reykjavík, að Hljómskálanum undanskildum, sem sérhannað er fyrir tónlistarflutning. Salurinn í hinu nýja tónlistarhúsi rúmar allt að 330 manns og er aðstaða þar öll til fyrirmyndar. Ýmir nýtist jafnt til tónleikahalds, æfinga, veislugjörðar og upptökustarfsemi, og hef ég heyrt á skotspónum fagmanna að jafn góður upptökusalur sé vandfundinn á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikið ánægjuefni fyrir borgarbúa að eignast svo vel búið húsnæði til tónlistarflutnings. Tónlistarlíf í Reykjavík hefur löngum verið bæði öflugt og frjótt, en viðhlítandi aðstöðu skort sáran. Á því hefur nú orðið sannkölluð bragarbót. |
– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri í ávarpi við opnun Ýmis. |
Í<!––> <!––> viðtali við Morgunblaðið dagsett í dag sunnudag segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi frá því að kostnaðaráætlun við byggingu tónlistarhúss í Reykjavík hafi fjórfaldast frá árinu 1997. Árið 1997 hafi kostnaðaráætlunin hljóðað upp á 1.550 milljónir króna en nú sé talað um 6.300 milljónir króna. Hafi áætlunin hækkað jafnt og þétt á þessum sex árum. Í viðtalinu kemur einnig fram að áætlaðar tekjur hússins eigi aðeins að standa undir daglegum rekstri þess en leggi ekkert að mörkum til greiða af þeim lánum sem taka þarf til að byggja húsið.
Nú þarf vart að taka það fram að líklega er nýjasta kostnaðaráætlunin vanáætluð eins og svo gjarna er með opinberar framkvæmdir af þessu tagi. Á einhverjum tímapunkti, sennilega í byrjun árs 1999, í þessu ævintýri á kostnað skattgreiðenda komst einhver starfshópurinn að því að ódýrasta lausnin væri að byggja tónlistarhúsið í Laugardal. Sá kosturinn var vitanlega umsvifalaust sleginn út af borðinu og ákveðið að fara með húsið niður að höfn þar sem ryðja þarf öðrum byggingum um koll og grafa niður vegi til að koma dýrari hugmyndum á koppinn.
Að öllum líkindum eru tekjurnar af húsinu ofáætlaðar. Húsið myndi því vart standa undir sér þótt það felli ókeypis af himnum ofan. En eins og Milton Friedman orðaði það: „Hádegisverðurinn aldrei ókeypis.“ Sumir hafa átt erfitt með að skilja þessi orð Friedmans. Kollegi Friedmans Ágúst Einarsson prófessor í viðskiptafræði útskýrði þetta einnig á skýran, skemmtilegan og einfaldan hátt í Þáttum í rekstrarhagfræði árið 1999: „Fjármögnun fjárþarfar felst í því að útvega fjármagn til að mæta fjárþörf.“
Skuldsett Reykjavíkurborg mun því þurfa að bæta við skuldir sínar til að fleiri tónlistarhús en þegar hafa verið byggð í Reykjavík rísi. Að Salnum í Kópavogi ógleymdum. Skuldirnar eru nú þegar 45 milljarðar króna. Þær gætu því aukist um 10% við þetta eina verkefni.
Hvað er það svo sem menn ætla að vinna með því að skuldsetja skattgreiðendur í Reykjavík meira en orðið er? Jú því verður ekki neitað að Sinfóníuhljómsveit Íslands mun að því loknu búa við betri aðstæður en nú í Háskólabíói. Þetta hefur nú samt bjargast ágætlega fram að þessu og hljómsveitin getið sér gott orð. Stærri viðburðir en Háskólabíó rúmar hafa farið fram í Laugardalshöll. Þar hafa bæði sinfóníuhljómsveitin og aðrir tónlistarmenn hlotið lof fyrir góðan flutning og tónleikagestir farið sælir heim.
Það blasir vonandi við menntamálaráðherra og borgarstjórn Reykjavíkur að ávinningurinn af því að sinfónían spili við betri aðstæður en í dag er ekki þess virði að skuldsetja hvert mannsbarn í Reykjavík um 40 þúsund krónur.