ÁEnglandi fer nú fram rannsókn, kennd við Hutton lávarð sem leiðir hana. Með rannsókninni er forvitnast um forsögu þess að vísindamaður að nafni David Kelly fyrirfór sér á dögunum. Andlát þessa manns og Hutton-rannsóknina hefur borið hátt í fjölmiðlum á Bretlandseyjum og víðar, þar á meðal hér á Íslandi. David Kelly hefur allt frá andláti sínu verið lýst sem þeim sérfræðingi sem mest mark hafi verið takandi á um Írak og vopnaeign Saddam-stjórnarinnar. Fjölmiðlar hafa birt miklar frásagnir af hinum ærlega vísindamanni sem aldrei tók þátt í lygum stjórnvalda sem vildu ekkert nema stríð, hvað sem það kostaði – eða eitthvað á þá leið. En þegar skoðað er hvað hefur komið fram í yfirheyrslum Hutton-nefndarinnar þá kemur eitt og annað fram, sem einhverra hluta vegna fær lítið pláss í fréttaskýringarþáttum. Meðal þess sem fjölmiðlamenn hafa engan áhuga á, er það sem komið hefur fram um skoðun Davids Kellys á innrásinni í Írak.
Nei því ætti skoðun Davids Kellys á henni að vera fréttnæm, vita ekki allir að sérfræðingur eins og Kelly var harður á móti stríðinu? Nú má vel vera að andstæðingar árásarinnar á Írak telji sig hafa átt bandamann í David Kelly, en þá hafa þeir rangt fyrir sér í því eins og ýmsu öðru. Meðal þeirra sem hafa borið vitni fyrir Hutton-nefndinni er systir Kellys heitins, Sarah Pape að nafni. Hún bar fyrir nefndinni að hún sjálf hefði verið þeirrar skoðunar að ekki hefði tekist að réttlæta innrás í Írak og hefði hún rætt þessa skoðun sína við bróður sinn. Og hvað segir frú Pape að hafi komið út úr viðræðum þeirra? „I was very surprised when he was absolutely convinced that there was almost no solution other than a regime change, which was unlikely to happen peacefully and regrettable would require military action to enforce it.“ Sarah Pape bætti því meira að segja við að David Kelly hefði náð að snúa allri fjölskyldu þeirra á sitt band í þessu máli og hefði fjölskyldan þó verið andsnúin stríði í upphafi.
Eins og menn hafa tekið eftir undanfarnar vikur hefur David Kelly verið lýst sem miklum sérfræðingi um gjöreyðingarvopnaeign Íraksstjórnarinnar og þess vegna afar marktækt hvað hann segði eða segði ekki um hana. Og hvað segir systir Kellys að hafi verið skoðun sérfræðingsins á því hvort Írakar réðu í raun yfir gereyðingarvopnum? „He was absolutely convinced [að vopnin] were buried in the sand, in the desert somewhere. He desperately wanted to go back to Iraq to finish the job.“ Það er einfaldlega þannig. Algerlega sannfærður. Óður og uppvægur að komast til Íraks til að finna vopnin sem hann taldi fullvíst að væru þar vandlega falin. Hefur einhver heyrt þetta í fréttaskýringaþáttunum, þessum óháðu og vönduðu þáttum sem eru fullir af frásögnum af vísindamanninum virta sem ofbauð falsið í þessum klístraða Blair?