Þriðjudagur 16. september 2003

259. tbl. 7. árg.

Það er sama hvort kosið er um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, efsta sætið hjá Samfylkingunni í Norðurlandi eystra, sæti á framboðslista R-listans, evruna í Svíþjóð, Nice á Írlandi eða hvort varpa eigi ríkisstjóra Kaliforníu á dyr. Alltaf skulu nútímalegir lýðræðislegir jafnaðarmenn reyna að breyta reglunum eftir á, hunsa niðurstöðuna, óska eftir annarri kosningu eða reyna hreinlega að koma í veg fyrir að kosningin fari fram eins gerist nú í gullna ríkinu þar sem demókratar hafa fengið dómstól í lið mér sér til að koma í veg fyrir kosninguna um ónýti ríkisstjórans.

Þetta er þeim mun merkilegra vegna þess að engir hafa haft jafn hátt um aukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig eru þeir allir frasarnir um milliliðalaust lýðræði, þátttökulýðræði, samræðustjórnmál, þátttökustjórnmál sem þeir nota þegar þeir hafa ekkert að segja um þau mál sem helst eru til umræðu? Þeir sem vilja kynna sér alla þessa frasa geta raunar gripið niður í næstu grein eftir Björgvin G. Sigurðsson eða Helga Hjörvar nútímalega þingmenn Samfylkingarinnar.

Íslenskir kratar eru vissulega engir eftirbátar félaga sinni í öðrum löndum í þessum efnum. Skemmst er að minnast skrípaleiksins sem kallaður var kosning um framtíð flugvallar í Vatnsmýrinni þótt borgarstjóri væri nýbúinn að skrifa um samkomulag við ríkið um framtíð flugvallarins. Fyrir könnunina sagði þáverandi borgarstjóri að ákveðna þátttöku þyrfti til að niðurstaðan yrði bindandi en eftir að sú þátttaka náðist alls ekki skipti þátttakan engu máli lengur. Þessi fyrrverandi borgarstjóri hefur raunar haft þann hátt á að láta ekki raska ró sinni með þátttöku í prófkjörum í eigin flokkum og framboðum heldur tekur sæti að eigin vali á framboðslistum, ýmist áður eða eftir að prófkjörin hafa farið fram.