Mánudagur 15. september 2003

258. tbl. 7. árg.

Það er auðvitað óvíst hvort það hefur nokkuð upp á sig hjá þeim, en þeir reyna að minnsta kosti. Mikill meirihluti sænskra kjósenda hafnaði evrunni í gær og fór þannig að dæmi meirihluta danskra kjósenda sem gerði það sama fyrir þremur árum. Sem minnir auðvitað á að ekki er til sú Evrópusambandsþjóð sem sjálfviljug hefur kastað gjaldmiðli sínum en tekið í staðinn upp gjaldmiðil Evrópusamkenndarinnar. Í þeim löndum þar sem evran ríkir, þar ákváðu stjórnvöld það ein. Í þeim löndum þar sem kjósendur hafa verið spurðir, þar er engin evra. Hitt er svo annað mál, hversu lengi kjósendum helst uppi að hrífast ekki með „Evrópusamkenndinni“, en eins og flestir vita er Evrópusambandið mjög áhugalaust um vilja íbúa sinna. Þjóðaratkvæðagreiðslur einstakra Evrópusambandslanda eru eitur í beinum Brusselstjórnarinnar, enda eru þær sjaldnast haldnar nema það sé óhjákvæmilegt vegna ákvæða stjórnarskrár einstakra ríkja. Evrópusambandið sýnir svo Brussel-lýðræðið í verki með því að þær atkvæðagreiðslur sem það tapar, þær eru endurteknar þar til kjósendur láta undan.

Danir felldu Maastricht-sáttmálann en voru þá látnir kjósa um hann aftur, að vísu með lítilsháttar breytingum. Írar felldu Nice-samninginn og voru þá einfaldlega látnir kjósa um hann aftur. Dönsk stjórnvöld bíða nú hagstæðs færis á að láta kjósa um evruna að nýju. Norðmenn hafa tvívegis hafnað Evrópusambandsaðild en þriðja atkvæðagreiðslan er sennilega ekki mjög langt undan. Og enginn þarf að ímynda sér að Svíar fái að hafa sænsku krónuna óáreittir um langa hríð. Sumum virðist þykja þetta sjálfsagt. Í kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi taldi Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar – þessi sem um árið tapaði fyrir Sigbirni Gunnarssyni í prófkjöri Samfylkingarinnar en var engu að síður í efsta sæti framboðslistans – að Svíar hefðu í gær ekki sagt „nei“ heldur „kannski seinna“, og sýnir þessi sannfæring hennar betur en margt annað hvernig „Evrópusamkenndin“ getur farið með fólk. Þeir sem eru illa haldnir af „Evrópusamkennd“ virðast ekki átta sig á því að það er til ósýkt fólk; fólk sem vill standa vörð um sjálfstæði og fullveldi eigin lands en sér ekki nauðsyn þess að verða limað inn í stórríki skriffinnskunnar og það undir stjórn erlendra embættismanna sem enginn hefur kosið og enginn nær til.

Ríkisútvarpið hefur greinilega komið sér upp fréttaritara í Svíþjóð og í gærkvöldi hóf hann mál sitt á því að Svíar hefðu hafnað evrunni og því þyrftu þeir að kjósa um hana að nýju. Engir fyrirvarar á neinu, nei þeir höfnuðu evrunni svo það þarf að kjósa aftur. Svo var þessi fréttarritari búinn að finna fréttamann á sænska ríkissjónvarpinu sem taldi að kosningaúrslitin væru til marks um að Svíar væru að sýna andstöðu við eigin ríkisstjórn en þó einkum að úrslitin sýndu að menn hefðu ekki getað kynnt sér málin nægilega vel eða átt erfitt með að gera upp hug sinn. Það er bara eins og sumir geti ekki áttað sig á því að það er til mikill fjöldi fólks sem hefur ekki tekið „Evrópusamkennd“; fólk sem hefur kynnt sér málin og hafnar ýmist Evrópusambandinu, evrunni, eða hvoru tveggja að því loknu. Dæmigerður maður með „Evrópusamkennd“ er væntanlega Graham Watson, leiðtogi þeirra flokka á Evrópuþinginu sem kalla sig frjálslynda. Hann mætti til Svíþjóðar í greiðaskyni, nú nokkrum dögum fyrir evrukosninguna, til að vara Svía við of mikilli fyrirhöfn. Skilaboð hans voru skýr: Ekki gera ykkur þetta of erfitt krakkar mínir. Eða eins og hann orðaði þetta af föðurlegri umhyggju Evrópusamkenndarinnar sem telur að borgararnir geti ekki sagt nei heldur í hæsta lagi kannski, kannski kannski: „If you vote ‘no’, you will have to vote again in a few years time. Do you really want to vote twice? Look at Ireland. They voted twice because they got the answer wrong the first time“.