Miðvikudagur 17. september 2003

260. tbl. 7. árg.

Þ

Þessi fagurlega gataða tunga er afrakstur námskeiðs sem niðurgreitt var af verkalýðsfélagi. Hún er lifandi sönnun þess að skyldugreiðslurnar eiga rétt á sér.

eir eru heppnir sem skyldugir eru til að greiða hluta launa sinna til verkalýðsfélags í hverjum mánuði. Sem kunnugt er fylgja því ýmis fríðindi að þessi skyldugreiðsla – verkalýðsfélagsskattur væri reyndar réttnefni – er tekin af fólki. Fólk getur leigt sér sumarhús sem byggð hafa verið að því forspurðu fyrir peninga þess og það getur einnig leigt sér tjaldvagna sem keyptir hafa verið með sama hætti. Og ef launþegar eru heppnir geta þeir fengið skemmtilegan glaðning frá verkalýðsfélaginu sem þeir borga skatta til, en það er sérstök ávísun sem hægt er að nota til margs konar frístunda. Þannig er hægt að nota ávísunina til að greiða fyrir gistingu á nokkrum hótelum og flug með örfáum flugfélögum. Þeir sem skyldugir eru til að greiða til verkalýðsfélagsins, og greiða þar með fyrir ávísunina sem þeir fá, þeir eru svo lánsamir að ávísunin gagnast þeim ekki nema þeir hafi hugsað sér að nýta sér þjónustu nokkurra tiltekinna fyrirtækja. Þeir hafa með öðrum orðum greitt með fullgildum peningum sem gilda alls staðar fyrir ávísun sem gildir bara á stöku stað.

En þetta eru ekki öll fríðindin sem innifalin eru í nauðungargjöldum launþega. Það nýjasta sem þeir geta glaðst yfir að fá að greiða fyrir var auglýst í dagblaði í gær undir yfirskriftinni „Götun (body piercing)“. Nú gefst launþegum nefnilega kostur á að nýta nauðungargreiðslur sínar – og annarra auðvitað – til að læra að gata líkama annars fólks. Og jafnvel eigin líkama ef þannig ber undir. Haldið verður vikunámskeið í líkamsgötun, þar sem kennari frá stofnun ekki ófrægari en American Body Art í París mun kenna fólki að gata eyru, maga, augnabrúnir og fleira sem ekki verður farið út í hér frekar en í auglýsingunni. En þar segir að örfá sæti séu laus og þá er bara um að gera fyrir launþega að nota þetta einstaka tækifæri og skella sér á námskeið í líkamsgötun, sem niðurgreitt er af greiðendum verkalýðsfélagaskattsins.