Föstudagur 12. september 2003

255. tbl. 7. árg.

Rifjum upp tvær ákvarðanir sem teknar hafa verið á síðustu vikum. Sú fyrri; dómsmálaráðherra velur einn af átta umsækjendum um laust dómaraembætti. Að minnsta kosti fjórir hinna sjö umsækjendanna hafa formlega beðið ráðherrann um að rökstyðja ákvörðunina; tveir hafa einnig leitað til umboðsmanns alþingis og hinir eru eflaust að velta fyrir sér að fara til umboðsmanns íslenska hestsins. Ráðherrann hefur farið í sjónvarpsviðtöl og umræðuþætti til að svara spurningum um val sitt og hinir og þessir hafa verið kallaðir til álits opinberlega. Gott og vel. Hin ákvörðunin þá; meirihluti hreppsnefndar einnar á Suðurlandi ákveður að veita ekki framkvæmdaleyfi fyrir tiltekna virkjun. Virkjunin verður ekki reist, að minnsta kosti ekki að óbreyttu. Álver verður þá kannski ekki stækkað. Atvinna á Vesturlandi verður mun minni en búist var við og það hefur áhrif á afkomu fjölda fjölskyldna. Hagvöxtur verður annar en ætlað var. Þjóðhagsáætlanir raskast. Hefur nokkur maður beðið hreppsnefndarmennina þrjá um að rökstyðja nokkurn hlut? Veit einhver, svona utan nánustu fjölskyldu og vina þeirra, hvað þeir heita hvað þá meir? Sennilega ekki, en þeir hafa sett talsverðan stól fyrir dyrnar hjá þeim sem ætluðu að stækka Norðurál.

Já, það eru ekki alltaf þýðingarmestu ákvarðanirnar sem mest eru ræddar eða rökstuddar. Ekki er heldur gott að fara fram á að einungis mikilvægustu ákvarðanir verði rökstuddar því ákvörðun getur skipt einn mann gríðarmiklu máli þó hún skipti litlu frá almennu sjónarmiði. Það er stjórnvöldum á hverjum tíma, bæði ráðuneytum og sveitarfélögum, gott aðhald að hægt sé að fara fram á rökstuðning ákvarðana þeirra. Með því er hins vegar ekki sagt að menn eigi að nýta sér þann rétt í hvert eitt sinn, þó sjálfsagt þyki mörgum sem einmitt þeirra mál sé afar mikilvægt, sérstakt og lýsandi. Forvitnilegt væri samt að vita hversu mikill tími og fyrirhöfn stjórnsýslunnar fer í að svara erindum eins og beiðni um rökstuðning ákvörðunar eða beiðni um hinar og þessar upplýsingar. Það er hætt við að sá tími og kostnaður sé gríðarlegur.

Þingmenn gera mikið af því að spyrjast fyrir um mál; krefjast ýtarlegra svara, sundurliðaðra eftir árum, landshlutum og auðvitað kynjum. Best finnst þeim auðvitað ef ekki er hægt að útvega svörin; fátt gleður til dæmis stjórnarandstæðing meira en geta sagt að verið sé að fela eitthvað „fyrir fólkinu í landinu“ eða þá að verið sé að „hindra alþingi í að sinna eftirlitshlutverki sínu“ – og enginn spyr hvort alþingi sé ekki fremur löggjafi en eftirlitsmaður. Það eina sem getur slegið þetta út, er ef tekst að finna villu í svarinu, þá kemur alvarlegur þingmaður í pontu og í Spegil Ríkisútvarpsins og segir það grafalvarlegt mál þegar logið er að þingi og þjóð. En flestum spurningum er auðvitað svarað og þá er bara fyrir þingmanninn að gera sem best úr því og benda á að svarið sýni að víða sé pottur brotinn og ráðherrann hafi sofið á verðinum.

Fyrirspurnir eins og þessar tíðkast einnig í sveitarstjórnum þó mest beri á þeim á alþingi. Í sveitarstjórnunum er leikurinn sá sami, bæjar- eða borgarfulltrúar bera fram spurningar í svipuðum tilgangi. En hér gildir það sama og um kröfuna um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana; þessi réttur er mikilvægt tæki til að halda yfirvöldum við efnið enda má ætla að sá, sem veit að hann getur þurft að standa öðrum skil á störfum sínum, muni varla að jafnaði standa sig verr en sá sem engum þarf nokkurn tíma að standa nein skil. Það er hins vegar fyrirspurnamagnið – og tilgerðin og leikaraskapurinn sem svo oft fylgir með – sem kemur óorði á þennan þátt stjórnsýslunnar. Á síðustu árum hefur aukist önnur gerð fyrirspurna og ekki endilega alltaf betri. Nú eru fjölmiðlamenn farnir að senda stjórnmálamönnum fjöldaspurningar, oft að því er virðist bara til að fiska eftir einhverju eða af því að ekkert er í fréttum. Fjölmiðlamaður tekur þannig fimm mínútur í að hripa niður nokkrar almennar spurningar; hefur þú einhvern tíma gert þetta og ef já þá hvar hvenær og hvers vegna? – og svo er þetta sent á alla þingmenn, borgarfulltrúa og hreppsnefndarmenn, sem svo sitja heilan dag að nudda á sér hökuna, rifjandi upp, skoðandi bækur og plögg til að reyna nú að gefa nákvæmt svar sem ekki verður grafið upp sem tilraun til að ljúga að þjóðinni.

Á meðan er blaðamaðurinn í kaffi.