Laugardagur 13. september 2003

256. tbl. 7. árg.

Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður á DV ritar umhugsunarverða grein í helgarútgáfu blaðsins. Hann bendir að á að fréttamenn séu stundum æði ónákvæmir í frásögnum sínum, en að enginn sé til að veita þeim aðhald og lesendur standi því berskjaldaðir frammi fyrir röngum fréttum. Fjölmiðlar kalla sig stundum fjórða valdið og telja sig sérstaka fulltrúa almennings og veiti fulltrúum þess, sem mætti þá kalla fyrsta, annað og þriðja valdið, mikilvægt aðhald. Fjölmiðlamenn telja sig jafnvel í krafti þessarar stöðu sinnar hafa sérstök réttindi umfram aðra landsmenn í ýmsu tilliti. Þetta er vafasöm krafa, en rétt er hins vegar að það er æskilegt að fjölmiðlar veiti jafnt ríkisvaldinu, öllum þremur greinum þess, og ýmsum öðrum áhrifamiklum aðilum, aðhald með réttum fréttaflutningi. Upplýsingar um hvernig áhrifamiklir aðilar, sérstaklega ríkið en þó ekki eingöngu ríkið, beita valdi sínu og áhrifum, er yfirleitt meðal þess sem fólk telur sig fá þegar það nýtir sér þjónustu fréttamiðils. Fjölmiðlar eru meðal þessara áhrifamiklu aðila og þess vegna er það réttmæt ábending að skortur á umfjöllun um frásagnir fjölmiðla, sérstaklega þegar þeir bregðast illa, er afar óheppileg og getur orðið til þess að óvandaðir fjölmiðlar geta endurtekið komist upp með ótrúlega slakan „frétta“flutning.

Ólafur Teitur nefndi nokkur dæmi um rangan fréttaflutning fjölmiðla, en ástæða er til að bæta einu við sem hann sleppti. Ef til vill sleppti hann þessu dæmi vegna þess að þessi tiltekni fjölmiðill er sennilega ekki mjög hátt skrifaður sem fréttamiðill og þess vegna kann að vera að kröfurnar til hans séu minni en kröfurnar til annarra fjölmiðla. Fjölmiðillinn er engu að síður útbreiddur og þeir sem stýra honum setja sig iðulega í alvarlegar stellingar þegar þeir skrifa ritstjórnargreinar sem jafnan enda á orðunum „gerum lífið skemmtilegra“. Þessi fjölmiðill, Séð og heyrt, varð í liðinni viku uppvís að því að segja vísvitandi ranga „frétt“ um að einn af þingmönnum þjóðarinnar hefði brotið af sér með því að aka án ökuréttinda. Fjölmiðillinn hafði á meðan „fréttin“ var unnin fengið það staðfest hjá æðsta yfirmanni lögreglunnar í því umdæmi sem aksturinn átti að hafa farið fram, að hann hefði alls ekki farið fram. Til væri mynd sem sýndi að þingmaðurinn hefði alls ekki verið undir stýri heldur verið farþegi í bifreiðinni. Þrátt fyrir þetta kusu ritstjórar blaðsins að birta fréttina, sem þeir myndu svo leiðrétta ef hún reyndist röng.

Slík framganga ritstjóra útbreidds fjölmiðils er með miklum eindæmum og hætt er við að ef stjórnmálamönnum yrði jafn alvarlega á í starfi sínu krefðust ritstjórar ýmissa blaða og tímarita að nú yrði stjórnmálamaðurinn að segja af sér til að „gera lífið skemmtilegra“. Ritstjórarnir sleppa hins vegar við gagnrýni, vegna þess að aðrir fjölmiðlamenn kunna af einhverjum ástæðum ekki við að gagnrýna félaga sína. En þá eru sem betur fer fleiri sem geta veitt þeim aðhald, því rétt eins og kjósendur geta hætt að kjósa stjórnmálamenn sem gera alvarleg mistök, geta kaupendur blaða og tímarita hætt að kaupa þau rit sem láta sig greinilega engu varða hvort þau halda sig við staðreyndir eða breiða vísvitandi út ósannindi.