Þingflokkur vinstri grænna hefur ekki komið tiltakanlega á óvart síðustu daga. Hann hefur ályktað um tvö mál og vitaskuld tekið afstöðu gegn frjálsum samningum í öðru þeirra og gegn markaðsstarfseminni í hinu, auk þess sem hann hefur að sjálfsögðu stutt aukin opinber afskipti í báðum málum. Fyrra málið sem þingflokkurinn hefur ályktað um eru kjarasamningar og Kárahnjúkavirkjun, og telur hann, líkt og Alþýðusambandið, að nauðsynlegt sé að allir starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun búi við sömu starfskjör. Verkalýðshreyfingin verður ævinlega mjög áhugasöm um kjör erlendra starfsmanna þegar þeir eru staddir hér á landi og lætur eins og það sé henni sérstakt kappsmál að þeir fái sömu laun og íslenskir starfsmenn. Skýringin á þessu er þó tæplega sérstök umhyggja fyrir erlendu starfsmönnunum, heldur tilraun til að halda uppi launum umbjóðenda sinna – og þar með skyldugreiðslum þeirra til verkalýðshreyfingarinnar. Þó að verkalýðshreyfingin og vinstri grænir láti sem þeim sé í raun annt um kjör erlendu starfsmannanna fær það þó alls ekki staðist, því ef erlendir starfsmenn væru ráðnir á sömu kjörum og innlendir má gera ráð fyrir að færri erlendir starfsmenn yrðu ráðnir og þeim yrði lítill greiði gerður með því. Erlendu starfsmennirnir kjósa að ráða sig í þessa vinnu vegna þess að þeim bjóðast betri kjör en þeir búa við að öðrum kosti, en verkalýðshreyfingin og vinstri grænir vilja spilla því, en þykjast um leið vera sérstakir verndara þessara erlendu manna.
Sveitastörf taka á. Jafnvel fyrir þrautþjálfaða menn. |
Annar hópur sem þingflokkur vinstri grænir hótar að koma sérstaklega til hjálpar eru sauðfjárbændur, en styrkir til þeirra eru ónógir að mati þingflokksins. Nú er það svo að sauðfjárbændur hafa lengi búið við mikinn, en að vísu minnkandi, stuðning ríkisins. Vandi þeirra felst ekki í því að styrkir hafi í gegnum árin ekki verið nægir, heldur að með styrkjakerfinu er óhagkvæmum búum haldið gangandi. Hið sama gildir um búrekstur og annan rekstur, hann verður að standa undir sér ef það á að vera hægt að lifa af honum með góðu móti. Ríkisstyrkur mun aldrei duga til að halda heilli atvinnugrein gangandi, enda yrði það til að sliga ríkissjóð. Lausnin fyrir landbúnaðinn er ekki auknir ríkisstyrkir heldur afnám styrkja og aukin hagræðing í greininni. Til að gera þetta mögulegt getur verið nauðsynlegt fyrir ríkið að styðja með einhverjum hætti við þá bændur sem kjósa að bregða búi, en stöðugur stuðningur við alla bændur getur aldrei gengið til lengdar. Fyrir vinstri græna er sú hugsun þó greinilega eftirsóknarverð, að halda bændum áfram í fátæktargildrunni en þykjast um leið vera sérstakur vinur þeirra.