Miðvikudagur 10. september 2003

253. tbl. 7. árg.

Þeir eru óneitanlega nokkuð sér á báti hjá Frjálslynda flokknum. Síðastliðið vor buðu þeir fram til þings Gunnar Örlygsson nokkurn sem fáir þekktu haus né sporð á aðrir en þeir. Þegar nokkuð var liðið á kosningabaráttuna kom í ljós að Gunnar þessi átti í vasanum nokkurra mánaða heimboð frá fangelsismálastofnun vegna brota á ýmsum lögum. Hafði Gunnar víst verið dæmdur fyrir bókhaldsbrot, tollalagabrot og fleira. Þegar þetta kom í ljós greindu forystumenn Frjálslynda flokksins frá því að þeim hefði alltaf verið ljóst að þingmannsefni þeirra væri á leiðinni í fangelsi en það gerði nú ekki mikið til. Þeir hefðu skoðað mál hans og þetta væri allt í góðu. Guðjón A. Kristjánsson benti meira að segja hróðugur á að Árni M. Mathiesen hefði sjálfur fengið dóm á sig skömmu áður og virtist ekki sjá nokkurn mun á nokkurra mánaða fangavist eða því að ummæli í sjónvarpsþætti væru dæmd ómerk.

Frjálslyndum þótti Gunnar ákjósanlegur þrátt fyrir yfirvofandi fangelsisvist vegna bókhalds-, tollalaga- og fleiri brota, en hugsanleg fangelsisvist vegna umferðarlagabrota veldur flokksmönnum óvæntum áhyggjum.

Á dögunum var greint frá því í fréttum að Gunnar þessi hefði fengið stutt leyfi úr fangelsinu til að mæta fyrir dóm og svara til saka í öðru máli þar sem hann væri sakaður um brot á umferðarlögum. En hvað gerist þá næst? Mætir ekki Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, í sjónvarp og er ekki hress. Ef Magnús Þór hefði vitað af þessu í vor þá hefði hann ekki stutt það að Gunnar yrði í framboði fyrir Frjálslynda. Magnús Þór ætlar svo í framhaldi málsins að ræða það við aðra í forystu flokksins hvort þeir krefjist þess að Gunnar láti af þingmennsku. Mennirnir sem völdu hann í framboð, vitandi það að hann átti margra mánaða fangelsisdóm í pokahorninu vegna bókhalds-, tollalaga- og fleiri brota; þeir eru að hugsa um að setjast niður með Gunnari og útskýra að vegna þessara umferðarlagabrota geti hann því miður ekki sest á þing.

Magnús Þór sagðist reyndar ætla að bíða þess hver niðurstaða dómsins yrði í þessu nýjasta máli þingmannsins knáa en fjölmiðlar hafa sagt að fyrir hin nýju brot megi Gunnar búast við mánaðarfangelsi til viðbótar við það sem hann afplánar nú. Reyndar er Vefþjóðviljinn ekki sérstaklega trúaður á að svo fari, svona vegna reglna um hegningarauka og blandaða refsingu, en auðvitað verður ekkert um það fullyrt fyrirfram. En það á sem sagt að ráða niðurstöðu Frjálslyndra. Ekki það hvort Gunnar er sekur um hin nýju brot eða ekki – en það mun hann hafa játað – heldur hvernig refsiákvörðun verður í málinu. Hvernig flokkur, sem búinn var að gefa það út að ekkert væri athugavert við það að væntanlegur þingmaður væri einnig á leiðinni í fangelsi, ætlar að láta nokkurn hlut ráðast af því hvort Gunnar Örlygsson verður mánuðinum lengur eða skemur í steininum er svo auðvitað annað mál. En alveg í stíl við svo margt annað hjá Frjálslynda flokknum.