Helgarsprokið 7. september 2003

250. tbl. 7. árg.

Fram hefur komið hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar að fyrirætlanir hennar um lækkun skatta verði ákveðnar í tengslum við kjarasamninga. Þetta er svo sem ekkert nýtt, því í tengslum við kjarasamninga hafa vinnuveitendur og verkalýðsrekendur iðulega samið við ríkið um breytingar á lögum, ekki síst skattalögum. Það þarf ekki heldur að koma á óvart að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli tala með þessum hætti, því í stefnulýsingu stjórnarinnar segir: „Skattalækkanir verði nánar ákveðnar í tengslum við gerð kjarasamninga.“ Hér er því nokkurt samræmi í hlutunum og það er jákvætt svo langt sem það nær. En því miður nær það ekki mjög langt og sú hugsun að blanda lækkun skatta eða öðrum lagabreytingum inn í gerð samninga á milli tveggja aðila í þjóðfélaginu þar sem hvorugur er ríkisvaldið er varhugaverð.

„Það er líklega nokkuð snjall leikur hjá stjórnmála- mönnum að hafa skattalækkun uppi í erminni ef liðka þarf fyrir kjarasamningum, en þar með er hvorki heppilegt né eðlilegt að fara þessa leið við lækkun skatta eða aðrar lagabreytingar.“

Það er líklega nokkuð snjall leikur hjá stjórnmálamönnum að hafa skattalækkun uppi í erminni ef liðka þarf fyrir kjarasamningum, en þar með er hvorki heppilegt né eðlilegt að fara þessa leið við lækkun skatta eða aðrar lagabreytingar. Síðast liðið vor var kosið til Alþingis og þá buðu flokkar sig fram á grundvelli stefnu sinnar, þó að aðrir þættir spili vitaskuld inn í þegar kjósendur ákveða hverjum þeir greiða atkvæði. Sá flokkur sem lofaði mestri skattalækkun, Sjálfstæðisflokkurinn, fékk mest fylgi og fékk þar með umboð til að hafa áfram forystu í landsmálum. Flokkurinn sem hann valdi til samstarfs, Framsóknarflokkurinn, lofaði einnig að lækka skatta á þessu kjörtímabili, þótt loforð hans væru heldur rýrari í roðinu en loforð Sjálfstæðisflokksins. Þegar stefnulýsingin var gerð lögðu flokkarnir loforð sín saman, deildu svo með tveimur og fengu út eftirfarandi markmið: „Að nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum. Á kjörtímabilinu verður m.a. tekjuskattsprósenta á einstaklinga lækkuð um allt að 4%, eignarskattur felldur niður, erfðafjárskattur samræmdur og lækkaður og virðisaukaskattkerfið tekið til endurskoðunar með það í huga að bæta kjör almennings.“

Þessi markmið ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru ef til vill ekki að öllu leyti mjög skýr, enda soðin saman úr tveimur stefnuskrám sem voru í ýmsum atriðum ólíkar. Markmiðin byggja engu að síður á loforðum flokkanna tveggja og ef þau ná fram að ganga er óhætt að fullyrða að lífskjör í landinu munu batna. Þótt ekki sé fyllilega ljóst af þessum markmiðum hve langt verði gengið í einstökum atriðum, er ljóst að skattalækkun er framundan ef markmiðssetningunni verður fylgt eftir. Og menn mega ekki gleyma því að þessi markmið eru afleiðing þess að kjósendur veittu þessum flokkum umboð til að ná fram lækkun skatta. Þetta á sérstaklega við um stærsta flokkinn, sem vildi mesta skattalækkun.

Svo kallaðir aðilar vinnumarkaðarins hafa hins vegar ekkert umboð fengið til að véla um lækkun skatta eða svo sem nokkuð annað sem lýtur að landsstjórninni. Aðilar vinnumarkaðarins buðu ekki fram lista í Alþingiskosningunum í vor og landsmenn hafa ekki fengið tækifæri til að taka afstöðu til hugmynda þeirra um breytingar á skattalögum. Aðilar vinnumarkaðarins eru vissulega í aðstöðu til að þrýsta á um áhugamál sín vegna þess að ef þeir ná ekki samningum hjálparlaust er vitað að annar samningsaðilinn, þ.e. verkalýðsrekendurnir, mun banna þúsundum landsmanna að vinna til að reyna að knýja fram vilja sinn. Opinber eða undirliggjandi hótun um slíkt ofbeldi á hins vegar ekki að veita þessum samningsaðilum rétt til að hafa sérstök áhrif á lagasetningu Alþingis. Það á að gera kröfu um að þeir semji sín á milli án atbeina ríkisins. Í því sambandi er raunar ástæða til að nefna að nú er gullið tækifæri til að ríkið hætti alfarið afskiptum af kjarasamningamálum með því að sleppa því að ráða í laust embætti ríkissáttasemjara, en leggja embættið þess í stað niður. Þannig væri þessum „aðilum“ send skýr skilaboð um að hér eftir sjái þeir einir og sjálfir um samningagerð sína, rétt eins og hverjir aðrir sem alla daga eru að semja sín á milli um allt milli himins og jarðar.