Síðdegis í dag verður atburður sem margir hafa beðið spenntir eftir. Nokkrir íslenskir knattspyrnumenn munu keppa við jafnmarga þýska í íþrótt sinni og ef marka má fjölmiðlaumfjöllun þá er ekki lítið í húfi. Fyrir löngu er uppselt á leikinn og komast mun færri að en vilja, sem knattspyrnuforystan reynir að nýta sér til þess að herja stærri mannvirki út úr skattgreiðendum. Hefur ýmsum furðurökum og dellureikningum verið beitt í þeirri baráttu eins og Vefþjóðviljinn fjallaði um á dögunum. Vonandi verður þessi hernaður gegn skattgreiðendum árangurslaus, en í þeim málum er auðvitað engu að treysta, eins og látlausar framkvæmdir í til dæmis samgöngumálum geta verið áminning um.
En gott og vel, það eru aðeins um sjö þúsund manns eða svo sem komast á völlinn í dag til að horfa á Íslendingana jafna um Þjóðverjana. Aðrir áhugamenn um þetta málefni verða að láta sér nægja að fylgjast með beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins af atburðinum. Og þegar minnst er á sjónvarpssendingar frá íþróttaatburðum þá rifjast upp að sá geðfelldi baráttumaður fyrir frjálsum viðskiptum og frelsi almennt, Evrópusambandið, hefur skipað svo fyrir að útsendingar frá stærstu íþróttamómentum megi ekki vera í því sem kallað er læst dagskrá. Hugsunin á bak við það mun vera sú að sumt sé svo mikilvægt frá almennu sjónarmiði að ekki megi selja aðgang að því heldur verði öllum að vera kostur að fylgjast með, sér að kostnaðarlausu.
Ekki er reyndar gott að segja hvers vegna íþróttaleikir, sem hafa auðvitað enga sérstaka almenna þýðingu þó þeir geti verið spennandi og skemmtilegir, eru settir á slíkan stall. En hver sem ástæðan er fyrir því, þá er þessi regla jafn slæm. Ef einkaaðilar ákveða að standa fyrir einhverri starfsemi, hvort sem það er spilirí á selló, fótbolti eða kórsöngur, þá er það þeirra mál og þeim frjálst að semja við hvern sem eru um útsendingar frá því. Áhugi annarra skiptir ekki máli. Og hvar ætla menn eiginlega að hætta? Má selja nýjustu bókina um hinn unga baldurbrjánsson, Harry Potter? Hvaða sanngirni er í því að sum börn geti eignast hana en ekki önnur? Eða nýjustu stórmyndirnar, þessar sem enginn er maður með mönnum nema hafa séð, hvaða réttlæti er í því að það sé selt inn á þær? Eða helstu fræðibækur, eiga þær ekki bara að fást „frítt“? Ef fótboltaleikur getur verið þess eðlis að það megi ekki senda hann út í áskriftarsjónvarpi, þá er nú vandséð hvað má eiginlega selja.
SSverrir Stormsker er fertugur í dag. Þessi er eftir hann:
Liggur niður hraun og hjarn heljarvegur langur. Fjarskalega leiðigjarn er lífsins niðurgangur. |
Þetta er málið. Bara vera jákvæður.