Í gærkvöldi var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins rætt við kynningarfulltrúa Stígamóta, Rúnu Jónsdóttur, og taldi hún mjög liggja á því að „kynferðisbrotakafli stjórnarskrárinnar“ yrði „endurskoðaður“. Þó sagt sé að í upphafi skuli endinn skoða þá yrði í þessu atriði sennilega heppilegast að hefja leikinn engu að síður á því að semja kynferðisbrotakafla stjórnarskrárinnar áður en kaflinn verður endurskoðaður því eins og þeir vita sem ekki hafa „kynnt sér málin“ eins vel og þær hjá Stígamótum segjast jafnan gera, þá er enginn kynferðisbrotakafli í stjórnarskránni. En þetta er svosem aukaatriði enda tók fréttamaðurinn ekki einu sinni eftir þessari kröfu Rúnu. Hann gerði heldur enga athugasemd þegar Rúna lét þess getið, sem sérstaks innleggs í umræður um elstu atvinnugrein mannkynsins, að hún hefði aldrei hitt hina hamingjusömu vændiskonu, þrátt fyrir að hún efaðist ekki um að hún væri til. Ekki virtist fréttamaðurinn hafa sérstakan áhuga á því að spyrja hvers vegna hamingjusamar vændiskonur ættu að leita til Stígamóta, hvernig leiðir Rúnu og vændiskvenna ættu að liggja saman eða hvort verið gæti að Stígamót fréttu einkum af því fólki sem teldi sig grátt leikið.
Það er ástæðulaust að gera lítið úr starfi Stígamóta – eða ýmsum öðrum störfum ef út í það er farið. Engin ástæða til að efast um að starfsmenn Stígamóta hafa hjálpað mörgum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. En af því leiðir ekki að þessir sömu starfsmenn séu endilega best til þess fallnir að meta hvað gera skal að öðru leyti. Þeir geta þvert á móti verið líklegir til að freistast til að styðja einfaldar lausnir, svona eins og baráttumenn á öðrum sviðum leiðast stundum út í að vilja banna allt sem getur orðið misnotað eða getur átt sínar dökku hliðar. Í Kastljósinu í gær hafnaði Rúna Jónsdóttir því að með banni við því að kaupa sér blíðu myndi vændið færast í undirheimana og sagði einfaldlega að vændið gæti ekki átt sér stað nema uppi á yfirborðinu því kúnninn yrði að vita hvar það fengist. Einmitt; og fyrst það er svo þá væri kannski ráð að banna fíkniefnasölu líka því ef hún er bara bönnuð þá verður auðvitað engin fíkniefnaneysla því kúnninn verður að vita hvar efnin fást. Það segir sig sjálft.