Mánudagur 1. september 2003

244. tbl. 7. árg.

Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra komu saman um helgina til að halda ellefta ársþing sitt. Samkvæmt fréttum Ríkissjónvarpsins var þar margt rætt, en sér í lagi þó tillögur í skattamálum. Sveitarstjórnarmennirnir munu hafa brotið blað í stjórnmálasögunni með því að komast að þeirri óvæntu niðurstöðu að þeir og umbjóðendur þeirra ættu að bera sömu byrðar og aðrir. Þrýstihópar reyna sem kunnugt er ekki að þrýsta á um að málstaður þeirra verði ofan á heldur vilja þeir að allir séu jafnir fyrir lögum og telja óþolandi að þeim sé hyglað á kostnað annarra. Eða þannig.

Nei, sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra komu reyndar engum á óvart með tillögu sinni í skattamálum. Þeir ályktuðu auðvitað um að „lífskjör í landinu yrði jöfnuð með aðgerðum í skattamálum“, rétt eins og það sé bæði unnt og æskilegt. Rætt var við formann sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og sagði hann kokhraustur að íslenska stjórnmálamenn skorti „kjark og þor“ til að breyta skattkerfinu í því skyni að ná fram lífskjarajöfnun milli landshluta, en lagði að vísu ekki í það sjálfur að koma fram með tillögur um hvernig þetta skyldi framkvæmt. Þegar fréttamaðurinn spurði hvort til greina kæmi að hafa tvö skattþrep í landinu, tók formaðurinn þó undir að það væri eitt af því sem mætti skoða og þá bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Hann sagði að þá yrði tekið upp lægra skattþrep fyrir þá sem búa á tilteknum landsvæðum.

Þetta er auðvitað glæsilega orðuð hugmynd. Lækkum skatta á sumum landsvæðum. En hvað með þá hugmynd að hækka skatta á öðrum landsvæðum? Hún hljómar ekki alveg jafn vel en er þó í raun nákvæmlega sama hugmyndin. Það verður þó seint þannig að sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra fari fram á að skattar á Reykvíkinga og nágranna þeirra verði hækkaðir, þeir munu alltaf bera tillöguna fram þannig orðaða að skattar sumra verði lækkaðir.

Fyrir utan það hve ranglát þessi hugmynd er, þá yrði hún líka skelfileg í framkvæmd. Segjum nú sem svo að línan yrði dregin við borgarmörk Reykjavíkur. Nú, þá flyttust bæði fólk og fyrirtæki enn hraðar út úr borginni en orðið er, og er þó ekki á það bætandi eftir árangur R-listans. Ef mörkin yrðu dregin utar, til dæmis tuttugu kílómetra frá borgarmörkunum, ja þá yrðu fyrirtækin til skammt utan þeirrar línu og fólkið flytti þangað. Þetta væri augljóslega óhagkvæmt, því fyrirtækin væru ekki á hagkvæmasta staðnum og fólk byggi ekki þar sem það helst kysi. Og þótt línan yrði dregin utar myndi það engu breyta um meginniðurstöðuna; óhagræðið yrði augljóst því fólk og fyrirtæki myndu velja sér aðra staðsetningu en hentaði best.

Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra og annars staðar á landinu verða að finna aðrar leiðir en ranglæti og ójöfnuð til að bæta lífskjör umbjóðenda sinna. Ein leiðin gæti verið að lækka útsvarið, en það er allt of hátt auk þess sem skuldir sveitarfélaganna vaxa allt of hratt. Með færri óþörfum ráðstefnum og ýmsum öðrum sparnaði mætti vafalaust lækka bæði skuldir og útsvar og létta landsmönnum þannig lífsbaráttuna.