Flúrljós, halógenljós eða bara venjulegt ljós.
Það er hægt að hafa skoðun á ýmsu, líka ljósum. Að vísu verður þess ekki vart að menn deili mikið um ljós. Það eru ekki til neinir flúrljósssinnar sem skrifa harðorðar greinar í Morgunblaðið gegn fylgismönnum halógenljósa og venjulegra og Morgunblaðið skrifar ekki heldur í leiðara að auðvitað eigi að banna kertaljós, eða allt annað en kertaljós. Nei, fólk deilir ekki opinberlega um ljós þrátt fyrir að skoðanir séu skiptar einfaldlega vegna þess að fólki er alveg frjálst að velja sér ljós eins og smekkur þess býður.
Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna leggur nú hart að ríkjum og borgum í Bandaríkjunum að taka í notkun orkusparnaðarreglugerð (International Energy Conservation Code) en reglugerðin kveður meðal annars á um hvaða tegund ljósa eigi að nota og hversu mörg vött megi nota á hverja flatareiningu herbergja og sala. Og sú tegund ljósa sem reglugerðin mælir með umfram aðrar er flúrljós. Þannig eru orðnir til flúrljósssinnar. Arkitektar, hönnuðir, veitingahúsaeigendur og fleiri gagnrýna nú reglugerðina harðlega og segja til dæmis ómögulegt að búa til aðlaðandi veitingastað undir miskunnarlausu ljósi flúrpera. Þannig eru orðnir til fylgismenn halógenljósa og venjulegra.
Ef eitthvað fer minnkandi en spurn eftir því vaxandi þá hækkar verð, í frjálsum viðskiptum manna á milli. En ef þetta sama er í höndum hins opinbera þá verður barasta til reglugerð. Nú er það svo að einhverjir neytendur myndu draga úr ljósanotkun sinni ef verð á raforku færi hækkandi. Aðrir neytendur myndu spara við sig í öðru til að standa straum af auknum kostnaði við óbreytta ljósanotkun. Með öðrum orðum: þarfir manna eru mismunandi og þær endurspeglast í verði og eru uppfylltar í viðskiptum á markaði. Reglugerðir uppfylla hinsvegar oftast ekki annað en þörfina fyrir reglugerðir.