Helgarsprokið 31. ágúst 2003

243. tbl. 7. árg.

Ríkislögreglustjóraembættið hefur óskað eftir 25 milljóna króna viðbótarframlagi ríkisins vegna mögulegrar skoðunar embættisins á gögnum þeim er Samkeppnisstofnun hefur viðað að sér um olíufélögin og starfsmenn þeirra með ærnum tilkostnaði undanfarin tæp tvö ár.

„Það eru oftar en ekki óánægðir keppinautar sem kynda undir rannsóknum samkeppnis- yfirvalda.“

Beinn kostnaður skattgreiðenda af afskiptum Samkeppnisstofnunar af einkafyrirtækjum á opnum markaði er ef til vill mælanlegur. Hann hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljóna króna á ári. Samkeppnisstofnun torgar nær 200 milljónum króna af skattfé á ári og vaxandi hluti þess fer í afskipti af einkafyrirtækjum. Það er hins vegar öllu erfiðara að meta þann óbeina kostnað sem fyrirtækin verða fyrir vegna bröltsins í „samkeppnisyfirvöldum“. Eins og dæmin sanna geta samkeppnisyfirvöld jafnvel notað það sem röksemd gegn því að fyrirtæki leggi í fjárfestingu (til dæmis kaup á öðru fyrirtæki) að hún sé ekki hagkvæm. Og fyrirtæki geta átt von á heimsókn frá samkeppnisyfirvöldum ef þau bjóða of hátt verð og einnig ef þau bjóða of lágt verð. Síðast en ekki síst mega þau eiga von á afskiptum ef þau bjóða sama verð og aðrir. Það virðist ekkert lát á verðlagseftirlitinu þótt nafni Verðlagsstofnunar hafi verið breytt í Samkeppnisstofnun fyrir áratug.

Til að verjast þessum ágangi þurfa fyrirtækin að ráða til sín lögfræðinga og stjórnendur þeirra og aðrir starfsmenn eru uppteknir við að svara spurningaflóðinu frá þessum embættismönnum sem í vaxandi mæli líta á sig sem yfirforstjóra íslenskra fyrirtækja. Og með því að takmarka svigrúm athafnamanna á þennan hátt eru samkeppnisyfirvöld að taka völdin af neytendum. Það eru neytendur sem eiga að hafa val um það hvert þeir beina viðskiptum sínum. Þegar samkeppnisyfirvöld hindra starfsemi fyrirtækja á opnum markaði eru þau að taka fram fyrir hendurnar á neytendum.

En það er víðar en hér á landi sem samkeppnismál eru atvinnuskapandi fyrir ábúðarmikla embættismenn, lögfræðinga og aðra sérfræðinga í samkeppnismálum. Evrópusambandið hefur verið að argaþrasast í hugbúnaðarfyrirtækinu Microsoft undanfarin fimm ár vegna samkeppnismála. Á dögunum lýsti Mario Monti samkeppniskommisar Evrópusambandsins því yfir að Microsoft yrði sektað um allt að 3 milljarða dollara. Það munu vera um 240 milljarðar íslenskra króna sem slagar upp í útgjöld ríkisins. Fyrir hvað eru þessar ofboðslegu sektir boðaðar? Jú fyrst og síðast fyrir þann alvarlega „glæp“ að gefa notendum Windows stýrikerfisins forritið Media Player. Þetta minnir óneytanlega á þráhyggju bandarískra stjórnvalda vegna þess að Microsoft lét Internet Explorer fylgja með Windows stýrkerfinu.

Þessi tvö mál sitthvoru megin Atlantsála lýsa því raunar ágætlega að það eru yfirleitt ekki hagsmunir neytenda sem ráða för þegar samkeppnisyfirvöld ólmast í fyrirtækjum. Hvernig getur það verið neytendum til óhagræðis að fá meira en minna fyrir peningana? Það eru oftar en ekki óánægðir keppinautar sem kynda undir rannsóknum samkeppnisyfirvalda. Þessi fyrirtæki hafa auðvitað ekki áhuga á hagsmunum neytenda heldur vilja þau hefta sókn keppinautar. Þau hafa gefist upp á að bjóða neytendum betri þjónustu en samkeppnisaðilarnir og leita því liðsinnis samkeppnisyfirvalda til að skerða þjónustu annarra.