Þriðjudagur 22. júlí 2003

203. tbl. 7. árg.
Samfylkingin vill breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni og gera almenna velsæld að daglegu viðfangsefni stjórnmálamanna.
 – úr ávarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur forsætisráðherraefnis í kosningabæklingi Samfylkingarinnar 2003.

ÍMorgunblaðinu í gær var birt grein eftir Ágúst Ágústsson á Alþingi. Greinin ber yfirskriftina „Hafa skal það sem sannara reynist um ESB“. Þar upplýsir Ágúst ótilneyddur að því er virðist að „nánast þriðji hver starfsmaður ESB vinnur við þýðingar“. Nú þarf líklega ekki að ræða það frekar að Íslendingar hljóta að sækja um aðild að stofnun þar sem þriðjungur starfsmanna situr og þýðir regðugerðaspekina sem annar þriðjungurinn samdi en síðasti þriðjungurinn sér væntanlega um að framfylgja. Það bara hlýtur að vera. Ekki síst þegar tillit er tekið til þess sem Ágúst upplýsir einnig kinnroðalaust að „55% af allri opinberri þróunaraðstoð í heiminum“ mun eiga rætur sínar að rekja til ríkja ESB. Með öðrum orðum er umframframleiðslu evrópskra bænda fleygt í íbúa þróunarlandanna svo landbúnaður þeirra nái sér ekki á strik og tollmúrar notaðir til að halda framleiðslu þeirra í skefjum. Hver vill ekki taka þátt í því?

En Ágúst hefur fleira í pokahorninu sem hlýtur að sannfæra einhverja tæknikrata um ágæti ESB. Gefum Ágústi orðið: „Um hina meintu staðlaáráttu er hið rétt að ESB hefur ekki sett neina staðla sjálft heldur hefur ESB samið við frjáls staðlasamtök sem eru mynduð af viðkomandi hagsmunahópum. Fyrirtækin sjálf vilja þessa staðla en þeir eru einungis viðmiðanir til að auðvelda viðskipti á milli landa og ná fram hagkvæmni í framleiðslu. Með samræmingu staðla er hægt að lækka viðskiptakostnað til muna. Í stað 15 mismunandi reglna um um alla mögulega hluti hefur ESB stuðlað að því að ein regla gildi á markaðinum, viðskiptalífinu og neytendum til mikillar hagræðingar. Ein mynt og samræmdar reglur eru til mikilla bóta í viðskiptum.“

Já einn staðall, ein regla, ein mynt. Hvað er hægt að biðja um meira? Er ekki búið að finna upp allt sem hægt er að finna upp og þar með hægt að staðla hlutina og hafa þetta þægilegt? Ef ESB og „viðkomandi hagsmunahópar“ vilja hafa hlutina staðlaða á ákveðinn hátt er það þá ekki bara það eina rétta? Með því að samræma og staðla framleiðslu má koma í veg fyrir að neytendur ruglist í ríminu af of miklum fjölbreytileika. „Fyrirtækin sjálf vilja þessa staðla“ enda eru þeir einmitt í samræmi við framleiðslu þeirra og koma í veg fyrir að ný fyrirtæki komi með nýja og ósamræmda vöru og „hækki viðskiptakostnað“ eða eitthvað. Að mati Ágústs á Alþingi er það neytendum til mikillar hagræðingar að koma í veg fyrir slíkt öngþveiti.

Staðlar eru ekkert öðruvísi en önnur vara. Þeir eiga að keppa um hylli fyrirtækja og neytenda en ekki vera hluti af regluverki sem kæfir frumkvæði og nýsköpun. Í röngum höndum eru þeir eitt mikilvirkasta verkfæri stjórnmálamanna til að „breyta verkefnum hins daglega lífs í opinber málefni“.