Mánudagur 21. júlí 2003

202. tbl. 7. árg.

M

Flest fyrirtæki neita að taka við gullmynt sem greiðslu á netinu. Hvar er Samkeppnisstofnun eiginlega?

aður nokkur skrifaði lesendabréf í Morgunblaðið á laugardag og var afar óánægður með að „netklúbbur Flugleiða“ neitaði að taka við greiðslu frá honum öðru vísi en um greiðslukort. Maðurinn hafði víst stundum skipt við flugfélagið og þá greitt með greiðslukorti, en af einhverjum ástæðum réði hann ekki lengur yfir slíku korti og vildi því fá að greiða með millifærslu um tölvubanka. Flugfélagið hafði hins vegar gefið þau svör að þeir sem keyptu um lýðnetið yrðu að greiða með greiðslukorti. Þetta taldi maðurinn ekki nógu gott og lauk bréfi sínu á ósk sem sem algengt er að heyrist þegar einhver fær ekki sitt fram: „Væri ekki rétt að Neytendasamtök og Samkeppnisstofnun tækju málið fyrir og þvinguðu hinn fræga samkeppniskappa til þess að sýna kúnnum kurteisi?“

Nú má auðvitað segja að það eigi ekkert að vera að eltast við allt það sem veltur uppúr mönnum sem skrifa lesendabréf en það segir hins vegar sína sögu að maðurinn búist við liðsinni Neytendasamtakanna og Samkeppnisstofnunar í þessu „máli“. Það er vissulega raunhæft. Í lesendabréfum eru oft svo fáheyrðar furðukröfur að það tekur því bara ekki að hugsa út í þær, hvað þá meira. En þessi krafa mannsins, eða þessi viðhorf hans, að hann eigi bara heimtingu á því að gagnaðili hans í samningnum semji með tilteknum hætti, er orðin svo algegng að það er rétt að minnast á hana. Vefþjóðviljinn heldur því fram að í frjálsum viðskiptum eigi menn einkum tvær kröfur. Að falslaus kaup skuli föst vera, og að hið opinbera skipti sér ekki af því hvernig fólk semur um sín mál. Ef viðskipti eru frjáls þá er enginn neyddur til viðskiptanna eða til þess að samþykkja annað en hann vill. Ef aðili gerir þær kröfur sem hinn neitar að ganga að, þá einfaldlega verður ekkert úr viðskiptum og hvor fer sína leið. Ef einhver vill til dæmis opna fyrirtæki sem aðeins tekur við greiðslu í segjum tómötum eða matadorpeningum þá er það bara þannig. Hann fær þá ekki viðskipti annarra en þeirra sem eru reiðubúnir að greiða með þeim hætti. Ef einhver ákveður að bjóða upp á flugferðir til Sydney með viðkomu í Djakarta og taka aðeins við greiðslu um greiðslukort, þá á enginn heimtingu á því að fá að borga öðruvísi. Rétt eins og flugfélagið á enga heimtingu á viðskiptum við þá sem aðeins vilja borga með reiðufé.

En það á auðvitað ekki að vera að pirra sig á lesendabréfum. Þau eru bara eins og þau eru. Sem rifjar upp að fyrir tæpum tveimur árum fjallaði Vefþjóðviljinn um þann mun sem oft er á íslenskum og erlendum dagblöðum og lauk þeim pistli á þessum orðum:

Annars er óþarfi að vera sífellt að ergja sig á því sem íslenskir fjölmiðlar bjóða áheyrendum sínum og lesendum upp á. Ísland er fámennt land og vart hægt að ætlast til þess að fjöldi fjölmiðla geti boðið upp á látlaust skemmtiefni eða skynsamlegar ritsmíðar dag eftir dag. Vart er sanngjarnt að gera sömu kröfur til íslenskra fjölmiðla og erlendra enda er munurinn á þeim oft sláandi. Á þriðjudaginn birti The Daily Telegraph lesendabréf frá einum áskrifanda sínum, Margréti Thatcher að nafni, þar sem hún sagði skoðanir sínar á innanflokksmálum Íhaldsflokksins. Sama dag birti Morgunblaðið milljónasta lesendabréfið frá Alberti Jensen.

Lesendabréfið sem Vefþjóðviljinn fjallaði um í dag, þetta með greiðslukortin og Flugleiðir, var annað af tveimur bréfum sem blaðið birti á laugardaginn. Og hver ætli hafi sent hitt?