Helgarsprokið 20. júlí 2003

201. tbl. 7. árg.

Lýðheilsustöð ríkisins var stofnuð á dögunum, í samræmi við flunkuný lög um Lýðheilsustöð. Í fyrstu grein laganna stendur að markmið þeirra sé að efla lýðheilsu en efling lýðheilsu er sögð felast í viðhaldi og betrumbótum á heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu. Í annarri grein laganna stendur svo að starfrækja skuli Lýðheilsustöð. Lögin eru semsagt skýr um það að efla beri lýðheilsu og að reka beri Lýðheilsustöð.

„Hin nýja Lýðheilsustöð er samsett úr þremur alræmdum forsjárhyggjuráðum, þar sem Áfengis- og vímuvarnaráð og Tóbaksvarnaráð hafa verið sýnu verst.“

Lögin eru ekki síður skýr um það hvaða merking er lögð í hugtakið lýðheilsa. Þannig segir í fimmtu grein laganna: „Áfengis- og vímuvarnarráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnaráð skulu starfa innan Lýðheilsustöðvar og gegna hlutverki sérfræðiráða Lýðheilsustöðvar.“ Lýðheilsa nær sem sagt yfir jafn ólíka hluti og áfengi, tóbak, slys og matarvenjur, svo eitthvað sé nefnt. Athyglisvert er til dæmis að farsóttir og smitsjúkdómar eru ekki undir hatti Lýðheilsustofnunar. Ekki svo að skilja að þeim málum sé ekki prýðilega sinnt hjá Landlæknisembættinu heldur undirstrikar það enn frekar hvert hlutverk hinnar nýju stofnunar er og hversu vafasamt það er í raun og veru að hún kenni sig við lýðheilsu.

Salus populi suprema lex, segir gamalt latneskt máltæki, sem gæti útlagst eitthvað á þessa leið: lýðheilsan er hin æðstu lög. Réttmæti þessarar fullyrðingar ræðst þó af því hvaða skilningur er lagður í hugtakið lýðheilsa. Ef hugtakið nær yfir næstum allt, eins og í lögum um Lýðheilsustofnun, þá er fullyrðingin óréttmæt. Ef hugtakið er skilgreint þröngt, með áherslu á lýð, þá er fullyrðingin réttmæt. Þessu til skýringar eru hér tvö dæmi:

Hugsum okkur tvö flutningaskip á ytri höfninni. Grunur leikur á að skipverjar annars skipsins séu haldnir smitsjúkdómi sem valda myndi farsótt með miklum mannfelli ef þeim yrði heimiluð landganga. Læknir er sendur út í skipið og þegar hann snýr aftur lýsir hann því yfir að allir skipverjar hafi tekið pestina og fyrirskipar þriggja vikna sóttkví og að enginn megi fara út í skipið. Nú er farmur skipsins súrál og fyrirsjáanlegt að álbræðslur landsins stöðvist af hráefnisskorti með tilheyrandi kostnaði áður en sóttkvínni verður aflétt. Engu að síður er réttlætanlegt að eignaréttur álframleiðendanna og persónufrelsi skipverja víki tímabundið. Hér gildir hið fornkveðna, salus populi suprema lex. Orð læknisins eru lög, jafnvel þó hann sé Kvíkúa-Indíáni.
 
Víkjum nú að hinu skipinu. Skipverjar eru allir við hestaheilsu og hvergi sóttkveikju að finna en farmur skipsins er hinsvegar gríðarlegt magn af sígarettum, súkkulaði, smjörlíki og áfengi. Ef þetta skip nær landi mun það hafa alvarleg áhrif á heilsu fjölda landsmanna enda fyrirséð að alls farmsins verður neytt, upp til agna. Engu að síður fær skipið að leggja að bryggju og það affermt óhindrað. Hér er ekkert sem réttlætir að víkja til hliðar eignarétti innflytjendanna eða persónufrelsi neytendanna.

Í fyrra tilvikinu er yfirvofandi farsótt sem enginn fær með góðu móti varist. Menn hafa ekkert val um það hvort þeir taka sóttina eða ekki. Það er heldur tæpast nokkur ábyrgur, hvorki fyrir því að smitast eða að smita aðra. Sumir smitsjúkdómar eru til dæmis þeirrar náttúru að smitberar eru einkennalausir og þannig breiða menn út smit, óafvitandi. Persónufrelsi og eignarétti er því réttilega vikið til hliðar, tímabundið, til að vernda líf almennings sem er auðvitað forsenda þess að almenningur geti yfir höfuð notið persónufrelsis og eignaréttar.

Sóttkví getur verið réttmæt takmörkun persónufrelsis í þágu lýðheilsu – og er þá átt við lýðheilsu í þröngum skilningi.

Í seinna tilvikinu er engin farsótt yfirvofandi. Jafnvel þótt farmur skipsins hafi í för með sér dauða og örkuml þeirra sem neyta hans þá hafa menn val um það hvort þeir neyta farmsins eða ekki. Og það er einmitt megin inntak persónufrelsisins og eignaréttarins, að hafa þetta val. Að skiptast á krónum og sígarettum við sígarettusalan ef vill, eða sleppa því að öðrum kosti. Að velja súkkulaðiköku bakaða úr smjörlíki fram yfir haframjölskökur bakaðar úr ólífuolíu, eða öfugt.

Hin nýja Lýðheilsustöð er samsett úr þremur alræmdum forsjárhyggjuráðum, þar sem Áfengis- og vímuvarnaráð og Tóbaksvarnaráð hafa verið sýnu verst. Ein meginforsendan í málflutningi þessara ráða hefur verið sú að þar sem ríkið reki „trygginga-“ og heilbrigðiskerfi þá eigi það kröfu á hendur einstaklingunum að þeir hagi lífi sínu þannig að það falli að rekstraráætlunum kerfisins. Á þessari forsendu hafa svo verið sett lög eins og Tóbaksvarnarlög sem þar sem tilgangurinn er algerlega látinn helga meðalið og þrengt er að tóbaksnotendum með því að rýra eignarétt og takmarka málfrelsi eins og svo margoft hefur verið rakið hér í blaðinu.

Richard A. Epstein, lagaprófessor við Chicago háskóla bendir á það í nýlegri grein, In Defense of the “Old” Public Health: The Legal Framework for the Regulation of Public Health, hvernig samningsfrelsi hefur til dæmis verið takmarkað með lögum undir formerkjum lýðheilsu og hvernig lýðheilsuhugtakið hefur verið þanið út, undanfarin hundrað ár í Bandaríkjunum og hvernig það nær nú yfir ýmislegt það sem engan vegin getur talist til lýðheilsu.

Ef Lýðheilsustöð á að rísa undir nafni þá ætti hlutverk hennar fyrst og fremst að vera að stuðla að frelsi einstaklingsins og reka markvissan áróður fyrir frjálsum markaði, lægri ríkisútgjöldum og auknum hagvexti. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að þau lönd, þar sem heilsa almennings er best, búa jafnframt við verulegt markaðsfrelsi og trygga löggjöf um eignarétt og frelsi einstaklingsins.