Miðvikudagur 23. júlí 2003

204. tbl. 7. árg.

L

Það er ekkert sem segir að einkaaðilar gætu ekki rekið fangelsið að Litla Hrauni.

íklega verður þess ekki langt að bíða að nýtt fangelsi verði reist hér á landi. Fangelsið við Skólavörðustíg í Reykjavík þykir ekki í takti við tímann og samþykkt hefur verið að reisa nýtt á höfuðborgarsvæðinu. Fangelsi hér á landi hafa verið ríkisrekin og mörgum þykir líklega sjálfsagt mál að svo verði áfram. Ríkisrekstur fangelsa er þó ekkert náttúrulögmál og má nefna að í Bretlandi eru bæði ríkis- og einkarekin fangelsi, sem keppa sín á milli um þjónustu og verð. Samtök atvinnulífsins þar í landi gáfu nýverið út skýrslu í tilefni af því að tíu ár eru frá því að einkarekstur fangelsa hófst og í skýrslunni kemur fram að árangurinn sé góður, raunverulegar og varanlegar framfarir hafi orðið á þjónustu fangelsanna.

Martin Narey er yfirmaður fangelsismála í Bretlandi og hann segir að reynslan sýni ekki einungis að einkaaðilar geti rekið fangelsi sem séu meðal þeirra bestu í landinu. Hún sýni einnig að samkeppnin hafi hvatt til breytinga í öllu kerfinu. Narey segir engan vafa á því að samkeppni þeirra sem reka fangelsin, hvort sem um er að ræða einkaaðila eða ríkið, hafi bæði bætt starfsemina og dregið úr kostnaði.

Rekstur fangelsa lýtur að ýmsu leyti sömu lögmálum og rekstur margs annað sem hið opinbera hefur nánast tekið sér einkarétt til að reka, svo sem rekstur skóla og sjúkrahúsa. Ekki er langt síðan hugmyndir um einkarekstur þessara stofnana þóttu fráleitar, en nú eru fleiri orðnir opnir fyrir þeim. Þetta er jákvætt, því á öllum þessum sviðum á það við að rekstrinum fylgir mikill kostnaður og mikilvægt er að lágmarka hann sem frekast er unnt. Um leið er mikilvægt að vel sé að málum staðið til að þeir sem njóta þjónustunnar komi sem bestir út úr stofnununum að vist lokinni. Þessi markmið nást best með því að leyfa einkaaðilum að taka að sér sem allra stærstan hluta þjónustunnar.