Eitt helsta áhyggjuefni bölsýnismanna úr röðum umhverfisverndarsinna er „offjölgun“ mannkyns. Þótt verulega hafi hægt á fjölgun mannkyns á síðustu áratugum og flestar spár um fólksfjölgun hafi stórlega ofmetið fjölgunina er fólki enn að fjölga. Liggur ekki í augum uppi að fyrr en seinna mun Jörðin ekki hafa undan við að brauðfæða þennan fjölda? Blasir ekki við að gæði Jarðar eru takmörkuð og okkur mun á endanum skorta jarðnæði til að allir hafi í sig og á? Einhver mun kannski verða til að benda á að nú þegar búi margir við sult og seyru. En það er ekki matarskorti að kenna því nægur matur er til staðar í heiminum til að metta alla. Maturinn kemst hins vegar ekki á rétta staði í öllum tilefllum. Ýmist er stríðsátökum eða sósíalisma um að kenna og oft hvoru tveggja.
En gæði Jarðar eru ekki takmörkuð í bókstaflegum skilningi þess orðs. Vissulega er fermetrafjöldi Jarðarinnar nokkuð föst stærð en hugmyndaflugi mannsins til að bæta nýtinguna á þessum fermetrum virðast engin takmörk sett. Eins og lesa má úr töflunni hér að neðan er nú helmingi minna land í Bandaríkjunum notað undir kartöfluræktun en fyrir rúmri öld. Engu að síður er uppskeran ríflega fjórföld.
Ár | Ekrur | Kartöflur af ekru, pund | Heildarframleiðsla, pund |
1890 | 2.557.000 | 3.990 | 10 milljarðar |
1997 | 1.363.000 | 33.800 | 46 milljarðar |
Bændur hafa linnulaust verið að bæta ræktun sína á þessu tímabili. Bætt sáning, bætt áveitutækni og notkun áburðar og skordýraeiturs hafa hjálpað til við að ná þessum undraverðu framförum.
En það eru ekki aðeins bændur sem bætt hafa nýtingu sína á landi. Á síðustu árum hefur framleiðendum kartöflurétta tekist að auka nýtingu á kartöflunum sjálfum. Nú má til dæmis fá 25% meira af frönskum kartöflum úr hverju kílógrammi af kartöflum en fengust fyrir 25 árum.
Og kartöflubransinn er ekki sá eini sem bætt hefur aðferðir sínar. Það er nær sama hvert er litið. Flestar greinar nota nú minni orku og hráefni í framleiðslu á betri vöru en þær gerðu áður. Enda eru flestar vörur nú ódýrari en þær hafa nokkru sinni verið í sögunni. Framboð þeirra hefur aukist hraðar en eftirspurnin. Það eina sem hefur hækkað að ráði í verði er vinnuafl, laun hins vinnandi manns. Hefur nokkur áhyggjur af fólksfæð?