Fimmtudagur 3. júlí 2003

184. tbl. 7. árg.

J

Í stað Héðinsfjarðarganganna, sem nú hefur sem betur fer verið frestað, mætti kaupa góðan jeppa handa hverjum einasta manni á Siglufirði.

afnvel þótt aðeins væri um frestun að ræða voru það gleðitíðindi fyrir skattgreiðendur þegar fréttir bárust af því í gær að samgönguráðherra hefði ákveðið að fresta Héðinsfjarðargöngum. Lægsta tilboðið í göngin var yfir áætlun og nam 6,2 milljörðum króna. Göngin eiga að liggja í gegnum tvö fjöll og um botn Héðinsfjarðar og tengja saman Siglufjörð og Ólafsfjörð. Á Siglufirði búa um 1.500 manns og á Ólafsfirði um 1.000 manns. Samtals eru íbúar svæðisins því um 2.500, sem þýðir að kostnaður við göngin á hvern íbúa hefði að minnsta kosti verið um 2,5 milljónir króna og kostnaður á fjögurra manna fjölskyldu þar með um 10 milljónir króna. Göngin eru reyndar mest til bóta fyrir Siglfirðinga og hefðu varla komið til álita nema til að bæta samgöngur til og frá Siglufirði. Ef kostnaðinum er eingöngu deilt niður á Siglfirðinga verður hann rúmar 4 milljónir króna á haus, eða ríflega 16 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Það þarf ekki að leggja út í miklar stærðfræðiæfingar til að sjá að slíkur kostnaður getur aldrei skilað sér til baka og að svo dýrar framkvæmdir eru því betri sem þeim er frestað lengur. Til að setja þennan kostnað í eitthvert samhengi má þó benda á að til að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu gætu talist sambærilegar hvað kostnað varðar þyrftu þær að kosta um 450 milljarða króna, og er þá miðað við að kostnaði Héðinsfjarðarganga sé deilt bæði niður á Ólafsfirðinga og Siglfirðinga. 450 milljarðar króna er um 28 sinnum hærri fjárhæð en öll útgjöld ríkisins til vegagerðar á þessu ári og þó hafa þau útgjöld vaxið hratt hér á landi.

Nú er það ekki svo að Vefþjóðviljinn dragi þessar tölur fram vegna þess að hann hafi enga samúð með Siglfirðingum, Ólafsfirðingum eða öðrum þeim sem ekki búa við fullkomnustu samgöngur. Vissulega getur verið erfitt að búa við það að vegir teppist eða jafnvel bara að þurfa að aka langan krók til að komast milli bæja í stað þess að fara einfaldlega stystu leið – það er að segja í gegnum næsta fjall. Það hljóta þó að vera einhver takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga til að liðka fyrir samgöngum. Þegar kostnaðurinn er orðinn slíkur að hægt væri að kaupa glæsilegan jeppa fyrir hverja fjölskyldu – eða jafnvel hvern einstakling – þar sem samgöngur þykja ekki með besta móti, þá hljóta menn að staldra við og velta því fyrir sér hvort ekki er einhver möguleiki á að verja fjármununum með skynsamlegri hætti. Til dæmis með því að lækka skatta á landsmenn, það er leið sem verður seint of oft farin.