Þriðjudagur 1. júlí 2003

182. tbl. 7. árg.

E

Tiltekin gerð fjárlagafjötra hefur dugað ákveðnum ríkjum Bandaríkjanna til að hemja útgjaldaófreskjuna.

f það er eitthvað sem erfitt er að koma böndum á þá eru það umsvif hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Opinberir aðilar gerast sífellt áhugasamari um einkalíf borgaranna og vilja bæði fylgjast með því í æ meiri smáatriðum og hafa afskipti af sífellt fleiri einkamálum. Umsvif hins opinbera aukast einnig á fjármálalega sviðinu, en ríki og sveitarfélög hafa smám saman aukið hlutdeild sína í framleiðslu landsmanna með æ þyngri skattheimtu og stöðugt vaxandi útgjöldum. Hér er ekki verið að tala um skammtímaþróun eða vanda sem fylgir tiltekinni ríkis- eða sveitarstjórn, þetta er alþjóðlegt vandamál sem þjakað hefur ríki heims að minnsta kosti áratugum saman. Fá ráð hafa dugað til að hemja þá ófreskju sem situr um tekjur og aðrar eigur manna og satt að segja virðist viljinn til að hemja hana oft ekki nema hóflega mikill hjá þeim sem ráða hverju sinni. En jafnvel góður ásetningur valdhafa er ekki endilega nóg, því þrýstihóparnir eru erfiðir viðureignar þegar ganga þarf til kosninga á fjögurra ára fresti undir háværum gagnrýnendum sem telja að skattgreiðendum hafi ekki blætt nóg í þágu tiltekins málstaðar. Af þessum sökum hefur stundum verið reynt að setja einhvers konar bönd á ófreskjuna, til dæmis með því að útgjöld hins opinbera megi ekki vaxa nema ákveðið mikið.

Fjötrar af þessu tagi hafa reynst misjafnlega og rannsóknir hafa sýnt að sumir þeirra hafa alls engum árangri skilað. Í nýlegri skýrslu frá Cato-stofnuninni í Bandaríkjunum er fjallað um tilraunir til að koma böndum á útgjöld ríkja þar í landi og dæmi nefnd um ákveðnar tilraunir sem ekki hafa skilað árangri. Slíkar tilraunir eru út af fyrir sig lærdómsríkar, en áhugaverðara er þó að þar eru einnig tekin nýleg dæmi af fjárlagafjötrum sem hafa skilað árangri. Í Colorado og Washington-ríki hefur verið komið á fjárlagafjötrum sem hafa orðið til þess að útgjöld hafa ekki farið úr böndum eins og víðast annars staðar. Þessi tvö ríki nota strangari viðmið en önnur ríki og gera kröfu um það að útgjöld ríkisins vaxi ekki umfram verðbólgu og mannfjölda, sem felur í sér að útgjöld á mann mega ekki vaxa að raungildi. Þá hafa þessi ríki ákvæði um það að vaxi skatttekjur umfram þessa viðmiðun þá skuli umframtekjunum þegar í stað skilað til skattgreiðendanna. Þegar skatttekjur aukast, til dæmis vegna uppsveiflu í efnahagslífinu, hafa ríkin þess vegna um tvennt að velja. Þau geta valið að endurgreiða umframtekjurnar sem verða til vegna hagsveiflunnar, eða að lækka skatthlutföllin þegar útlit er fyrir auknar skatttekjur. Í skýrslunni kemur fram að síðarnefnda leiðin verði frekar fyrir valinu, enda sé hún fremur til vinsælda fallin meðal kjósenda auk þess að vera einfaldari í framkvæmd.