Mánudagur 30. júní 2003

181. tbl. 7. árg.
Augun leiftra, röddin verður blæbrigðaríkari og handahreyfingarnar ákveðnari. Þórólfur Árnason borgarstjóri á ekki auðvelt með að leyna ákefð sinni þegar helstu hugðarefnin innan borgarkerfisins ber á góma. Af orðum hans og allri líkamsbeitingu er ljóst að hann hefur brennandi áhuga á viðfangsefninu.
– Blaðamaður Morgunblaðsins lýsir Þórólfi Árnasyni látlausum orðum í upphafi opnuviðtals í gær.

Hvað er eiginlega með sunnudagsblað Morgunblaðsins? Er blaðamönnum þess fyrirmunað að taka gagnleg viðtöl við fólk? Hvers vegna er svo sjaldan spurt nokkurs sem máli skiptir? Geta blaðamennirnir svo aldrei brugðist við svörunum í staðinn fyrir að fara vélrænt yfir í næsta efni? Er þeim bannað að fara út fyrir fyrirframhugsaðar spurningar? Af hverju fer þetta fólk ekki bara að skrifa í Heima er bezt?

Í gær birti Morgunblaðið eitt af þessum opnuviðtölum sínum og í þetta skiptið sat Þórólfur Árnason fyrir svörum – ef hann sat þá, því einhvern veginn tókst honum með „allri líkamsbeitingu“ sinni að sýna brennandi áhuga sinn á borgarmálum og vill Vefþjóðviljinn helst ekki hugsa út í hvernig það fór fram. En viðtalið hefst sem sagt á lýsingu á leiftrandi augum og blæbrigðaríkri rödd borgarstjórans, sem að sögn blaðamanns hefur „komið sér vel inn í starfið og er farinn að taka til hendinni í ýmsum málaflokkum“. Þórólfur ræðir um hve hann „njóti starfsins“ og hversu hann hlakki til að komast í sumarfrí. Hann hefur að eigin sögn ekki enn gefið sér „nægilegan tíma til að velta fyrir sér [sínum] eigin áherslum í starfinu“ en engu að síður dylst „ákefð“ hans ekki þegar hann talar um „helstu hugðarefnin“, eins og blaðamaður Morgunblaðsins orðar það.

Það er mjög eðlilegt að tekið sé ýtarlegt viðtal við Þórólf Árnason. Undanfarna daga hefur samheldni R-listaflokkanna minnkað jafnt og þétt, eins og berlegast kom fram í hnútukasti borgarfulltrúanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Alfreðs Þorsteinssonar og Árna Þórs Sigurðssonar. Um þetta spyr Morgunblaðið einfaldlega: „Finnst þér samvinna þriggja flokka eins og í R-listanum ganga upp?“ Við því fæst það svar að samstarfið gangi „alveg hreint prýðilega“ og við það hnýtir Þórólfur langloku um það hve hann hafi „alltaf dáðst að þeim sem bjóða sig fram til góðra verka í almanna þágu.“ Og sunnudagsvenju sinni samkvæmt spyr Morgunblaðið ekki frekar um deilur R-listaflokkanna heldur fer yfir í næsta mál. Ekki minnst einu orði á það sem máli skiptir, bara almenn spurning um það hvort samvinna þriggja flokka gangi upp og svo farið yfir í næstu spurningu.

Annað sem ræða mætti við borgarstjóra R-listans er skuldastaða Reykjavíkurborgar, en eins og flestallir vita hafa skuldir hennar aukist stórkostlega á undanförnum árum. Það mál afgreiðir Morgunblaðið með þessum snarpa hætti sem leiðir lesendur í allan sannleika um kjarna málsins: „Hvert er kalt mat þitt á fjárhagsstöðu borgarinnar?“ Þórólfur svarar því til að borgin sé með „góðan rekstur, góða eignastöðu og fyrirmyndar uppgjörskerfi“ og bætir því við að það væri hægt að greiða skuldir hennar niður á sjö mánuðum ef ekki væri greitt til rekstrarins á sama tíma. Blaðamaður spyr vitaskuld einskis frekar. Nefnir engar tölur eða nokkuð annað sem skiptir lesendur máli. Fer bara yfir í næstu spurningu. Eiginlega ættu viðmælendur sunnudagsblaðs Morgunblaðsins að gera tilraun. Þeir ættu að prófa að svara spurningum algerlega út í loftið, fara kannski með kvæði eða lapþunn spakmæli og sjá hvað gerist.

Lína.net er nú mál sem rétt er að ræða við nýjan borgarstjóra, en með því fyrirtæki hefur borgaryfirvöldum tekist að tapa ótrúlegum fjárhæðum. Um það spyr Morgunblaðið: „Hvert er mat þitt á Línu.Nets verkefninu?“. Við því kemur mikil langloka um hve vel hafi tekist að sameina Vatnsveituna og Rafmagnsveituna á sínum tíma, en svo segir Þórólfur að ráðist hafi verið út í „gagnaveitu“ á þeim tímum þegar meiri væntingar hafi verið um viðskipti og hagnað í fjarskiptum. Þórólfur líkir gagnaflutningskerfi Línu.nets svo við hitaveitu sem jafnan sé rekin með tapi í upphafi. Og þar með er það komið. Ekkert um það hvort tapið sé meira eða minna en sættast megi á. Ekkert um það hvort það sé kannski í lagi að halda áfram að tapa. Ekkert um það hvenær vænta megi ágóða. Ekkert sem hönd festir á. Og viðbrögð Morgunblaðsins? Það er bara spurt næstu spurningar. „Hvað sérðu fyrir þér varðandi Vatnsmýrina?“

Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að rekja þetta viðtal Morgunblaðsins við Þórólf Árnason frekar. Þó má geta hörðustu spurningar blaðsins. Þar er Þórólfi og R-listanum nú ekki sýnd nein miskunn: „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vann gott verk á sviði jafnréttismála á borgarstjóraferli sínum. Munt þú halda því starfi áfram?“