Í fyrradag vitnaði Vefþjóðviljinn í viðtal Útvegsins við Stefán Einarsson útgerðarmann í Aðalbjörgu, en Stefán bar sig aumlega undan „smábátadekri“ sem hann sagði viðgangast í fiskveiðistjórnuninni. Þó útvegsmenn telji flest látið eftir smábátamönnum og þeirra hlutur síbættur á annarra kostnað, þá er sennilega algengt að landsmenn ímyndi sér að þróunin sé þveröfug, að jafnt og þétt halli undan fæti trillukarlsins. Útgerðarmenn benda hins vegar á að smábátarnir verða sífellt öflugri og taki til sín sífellt stærri hluta aflans. En það er ekki bara um smábátana sem útgerðarmenn telja sig þurfa að leiðrétta eitt og annað í umræðum um sjávarútvegsmál. Í sama tölublaði Útvegsins er grein sem heitir því sáttfúsa nafni „Rangfærslur um sjávarútvegsmálin í aðdraganda Alþingiskosninganna“ og eru þar tíunduð ýmis dæmi um málflutning sem útgerðarmönnum þótti lítið til koma. Ekki er rúm til að rekja þau öll hér, en óhætt er að segja að frambjóðendum Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins eru ekki gefnar háar einkunnir.
Eins og menn muna töluðu frambjóðendur Frjálslynda flokksins mikið um „færeysku leiðina“ sem góða aðferð við fiskveiðistjórnun og höfðu til sannindamerkis um ágæti eigin tillagna. Útvegurinn var ekki sannfærður:
Frambjóðendur Frjálslynda flokksins boðuðu sóknarstýringu sem nýja aðferð til að stýra botnfiskveiðum Íslendinga. Þeir vísuðu til reynslu Færeyinga og létu eins og þeir hefðu uppgötvað eitthvað nýtt og spennandi í þessum efnum, sem er rangt. Hið rétta er að sóknarstýring er gömul aðferð við stjórnun fiskveiða og hefur reynst illa, m.a. á Íslandsmiðum. Upp úr 1990 hrundu fiskistofnar við Færeyjar með tilheyrandi þrengingum í efnahagslífinu. Færeyingar neyddust þá til að selja nýjustu skipin sín og eftir urðu leifar flota gamalla og úr sér genginna báta. Þá var tekið upp aflakvótakerfi að íslenskri fyrirmynd. Fljótlega upp úr því jókst fiskgengdin við eyjarnar ótrúlega hratt. Var mat á stofnstærð og veiðiráðgjöf annars vegar og úthlutaðrar aflaheimildar hins vegar ekki í neinum takti við góð aflabrögð og afleiðingin varð mikið brottkast umframafla. Í kjölfarið hurfu Færeyingar frá aflakvótum og kusu að stýra sókninni með kerfi sóknardagakvóta frá árinu 1996. Nú er veitt talsvert umfram ráðgjöf fiskifræðinga og horfur eru á að umframveiðin vaxi með nýjum og öflugri fiskiskipum, enda er endurnýjun færeyska fiskiskipaflotans hafin af krafti. Spurning er hvernig fiskistofnunum reiðir af í framhaldinu. … Frjálslyndir létu að því liggja að færeyska fyrirkomulagið væri gjörólíkt hinu íslenska. Hið rétta er að í færeyska kerfinu er fiskveiðum bæði stjórnað með aflamarki og sóknarmarki, en einnig með lokunum og friðun veiðisvæða, auk veiðarfærastýringar. Þar er kerfið lokað eins og á Íslandi, þótt talsmenn Frjálslynda flokksins hafi ekki haldið því á lofti. Í Færeyjum þurfa menn að kaupa bát með veiðileyfi og sóknardaga þegar um það er að ræða, alveg með sama hætti og á Íslandi. Sóknardagarnir eru framseljanlegir og margfalt dýrari en einn frambjóðandi flokksins hélt fram í kosningabaráttunni. Hið eina sem er frábrugðið í Færeyjum er hin óhagkvæma sóknarstýring á hluta flotans. |
Í Útveginum eru gallar sóknarmarkskerfis Frjálslyndra reifaðir nokkuð en þar ef af mörgu að taka:
Stjórnun fiskveiða með sóknarmarki hefur víða verið reynd. Þar er áherslan á sem mest aflamagn á hvern sóknardag frekar en á gæði. Í sóknarmarkskerfi er erfitt að skipuleggja veiðar og samhæfa veiðar og vinnslu eins og gert er í aflamarkskerfi. Sóknarstýring gerir það erfitt að koma til móts við kröfur kaupenda um jafnt og stöðugt framboð á fiskafurðum og mikil gæði. Það kemur síðan niður á afurðaverði og markaðsaðgangi. Tillögur Frjálslynda flokksins myndu leiða til minni vöruvöndunar í greininni, minna afhendingaröryggis, minni gæða afurðanna og lægra verðs þeirra. Sóknarmarkskerfi mun heldur ekki eyða brottkasti eins og haldið hefur verið fram. Hvatinn til brottkasts verður aðeins annar en nú er. Sú leið myndi vega beint að lífskjörum þeirra sem í atvinnugreininni starfa og þar með lífskjörum þjóðarinnar allrar. Einn versti galli sóknarstýringar er sá að hún hvetur til aukinnar fjárfestingar í öflugri fiskiskipum og tækjabúnaði. Ekki í þeim tilgangi að auka gæði og verðmæti heldur til að ná sem mestum afla á þeim takmarkaða fjölda veiðidaga sem hvert skip fær. Því fylgir mikið óhagræði og meiri kostnaður við veiðarnar en í aflamarkskerfi. Sóknarmarki fylgir því alltaf óarðbær fjárfesting og veiðarnar verða óhagkvæmar. Kapphlaupið um veiðidagana leiðir svo til umframveiði á sama hátt og gerst hefur á sóknardagabátum á Íslandsmiðum. Í kjölfarið verður svo að fækka sóknardögum til að stemma stigu við ofveiði. Þegar svo er komið er hætt við að úthlutaðir dagar, og sá afli sem þeir gefa, dugi ekki til að standa undir rekstri fiskiskipanna. Þegar svo er komið komast menn að hinu sanna sem er það að fiskveiðistjórnunarkerfi búa ekki til fisk þó sumir talsmenn Frjálslynda flokksins virðist halda það. |
Ekki verður hér farið yfir allt sem Útvegurinn hefur við málflutning sumra stjórnmálaflokka að athuga. Að lokum má hins vegar grípa niður í þeim kafla sem fjallar um Samfylkinguna og fyrningarleiðina hennar.
Í kosningabaráttunni boðaði Samfylkingin að ríkið ætti að taka veiðiréttinn af sjávarútvegsfyrirtækjunum og selja hann hæstbjóðanda. Þetta nefndi flokkurinn „fyrningarleið“ og hugðist hann hrinda þeirri leið í framkvæmd og fyrna aflaheimildirnar á 10 árum. Áróður flokksins byggðist á ótrúlegum dylgjum og blekkingum um að útgerðin í landinu hafi fengið milljarða verðmæti á silfurfati. Markmiðið var væntanlega að kjósendur heimtuðu að útvegurinn verði krossfestur. Hefði fyrningarleið Samfylkingarinnar náð brautargengi í kosningunum með þeim hætti sem boðað var myndi hún leiða til þess að fjöldi útgerðarfyrirtækja yrði gjaldþrota á tiltölulega fáum árum og upplausnarástand skapast á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Sömu sögu er að segja af hugmyndum Vinstri grænna, þótt þær hafi ekki verið jafn róttækar og tillögur Samfylkingarinnar. Fyrningarleiðin hefði leitt til kapphlaups um takmarkaðar veiðiheimildir og ekkert fyrirtæki hefði verið tilbúið að gera út á minni heimildir en það hafði áður. Þvert á móti. Flestir hefðu viljað auka við heimildir sínar, því flestir telja sig hafa úr of litlu að spila. Það hefði leitt til umframeftirspurnar og stórhækkaðs verðs á veiðiheimildum, öfugt við málflutning Samfylkingarinnar. Hvernig flokkurinn ætlar síðan að koma því heim og saman að verð lækki þegar eftirspurn vex skal ósagt látið. Til allrar hamingju virðist ekki útlit fyrir að sú hagfræðitilraun verði gerð hér á landi á næstu árum. Rétt er að rifja upp þá staðreynd að þegar kvótakerfið var að komast á glímdu sjávarútvegsfyrirtæki víðs vegar um land við gríðarlega erfiðleika. Mörg þeirra náðu að rétta úr kútnum með gríðarlegri baráttu allra starfsmanna þeirra við að verja lífsbjörgina. Vinna snerist um að hámarka verðmæti aflans og lágmarka kostnað. Í kosningabaráttunni voru skilaboð Samfylkingarinnar til starfsfólks fyrirtækjanna þessi: „Við ætlum að taka af ykkur kvótann sem þið höfðuð svo mikið fyrir að verja. Þið fáið þó tækifæri til að bjóða í hann á markaði. Það er hins vegar ykkar vandamál ef þið hafið ekki efni á að kaupa hann til baka eða ef þið bjóðið ekki nógu hátt verð.“ |