Í grein sem hagfræðingurinn Thomas Sowell birti í gær bendir hann á að borgin München hafi skipt Microsoft stýrikerfinu út fyrir Linux stýrikerfið í 14.000 tölva sinna. Sowell bendir á að þröngar skilgreiningar á hugtakinu markaður séu notaðar til að finna út að fyrirtæki, til að mynda Microsoft, hafi markaðsráðandi stöðu. Hann notar Microsoft-málið fræga sem dæmi og segir að í því tilviki hafi dómari komist að þeirri niðurstöðu að Microsoft hefði „markaðsráðandi“ stöðu á markaði fyrir stýrikerfi sem notuðu Intel-örgjörva. Með slíkri skilgreiningu hafi ýmsar gerðir tölva verið útilokaðar og þar með auðveldara að komast að þeirri niðurstöðu að Microsoft hefði markaðsráðandi stöðu. Staðreyndin sé þó sú að Microsoft standi frammi fyrir samkeppni, eins og dæmið frá München sýni.
Sowell tekur annað dæmi, en það er af rafmagnsritvélum. Hann segir að seint á níunda áratugnum hafi Smith-Corona framleitt allar ferðarafmagnsritvélar sem framleiddar voru í Bandaríkjunum. Þessi 100% markaðshlutdeild hafi þó ekki skilað fyrirtækinu einokunargróða og það hafi raunar orðið gjaldþrota þegar tölvunum fjölgaði á kostnað ritvélanna. Og jafnvel áður en til þess kom, hafi japanskir framleiðendur selt fleiri ritvélar í Bandaríkjunum en Smith-Corona. Með þeirri skilgreiningu sem menn beiti í samkeppnismálum hafi hins vegar verið hægt að undanskilja erlenda samkeppni þegar markaðshlutdeildin var reiknuð.
Þetta síðastnefnda þekkja menn úr úrskurðum samkeppnisyfirvalda hér á landi. Þegar lagt var mat á markaðshlutdeild á prentmarkaði tókst samkeppnisyfirvöldum til að mynda að komast að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að líta ekki til erlendrar samkeppni þegar aðstæður á prentmarkaði væru metnar, þrátt fyrir að allir sem til þekktu vissu að innlendar prentsmiðjur átti í harðri samkeppni við þær erlenda. Þar með var hægt að líta fram hjá stórum hluta markaðarins og komast að niðurstöðu sem var rökrétt eftir því.