Fimmtudagur 19. júní 2003

170. tbl. 7. árg.

Á

Munu fjölmiðlar framvegis ræða við konur vegna líffræðilegra eiginleika þeirra en ekki hæfileika sem eintaklinga?

 þessum degi árið 1915 fengu konur almennan kosningarétt hér á landi, en fram að þeim tíma hafði hann um nokkurt skeið verið ýmsum takmörkum háður. Það skref sem með þessu var stigið var sjálfsagt, enda er ekki rétt að ríkið mismuni fólki eftir kynferði frekar en háralit eða hæð. Nú er staðan sem betur fer önnur en áður var og konum er nú orðið í engu mismunað og þær njóta allra sömu réttinda og karlar. Og þar með hlýtur „kvennabaráttunni“ að vera lokið svo jafnréttissinnar geta snúið sér að öðru. Nei, svo er nú aldeilis ekki. Ef marka má yfirlýsta „feminista“ er þessari baráttu engan veginn lokið, því enn munu ýmsar hindranir standa í vegi kvenna. Ef marka má málflutning þessa fólks reka konur sig á alls kyns ósýnilega veggi og þök og þeim er enn mismunað – að minnsta kosti í laumi.

Í þessu sambandi er oft nefnt er að færri konur séu hér og þar í þjóðfélaginu. Þær séu til dæmis sjaldnar viðmælendur í fjölmiðlum og það stafi af einhverri ósýnilegri mismunun sem enginn hefur getað útskýrt. Þess vegna hefur nú verið komið á fót sérstakri heimasíðu sem heitir kvennaslodir.is þar sem safna á saman lista yfir konur sem skrá sig og telja sig sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum og eru reiðubúnar til að gerast viðmælendur fjölmiðla. Þar sem veraldarvefurinn er fullur af furðulegum heimasíðum er þessi langt frá því að geta komist á topp-tíu listann yfir slíkar síður, en sérkennileg er hún. Heimasíðan lýsir nefnilega því furðulega viðhorfi að fjölmiðlar eigi að velja sér viðmælendur eftir kynferði en ekki eftir því hvað þeir hafa fram að færa. Það er ekki verið að setja upp síðu fyrir fólk sem telur sig hafa eitthvað til málanna að leggja – sem væri nú nógu einkennilegt – heldur er síðan eingöngu til að hjálpa helmingi landsmanna að vekja á sér athygli. Ýmsum mun sjálfsagt þykja þetta hið merkasta framtak og gott innlegg í hina eilífu kvennabaráttu. Þeir gleyma því hins vegar að þeir eru til sem ekki eru uppteknir af hinni tölfræðilegu kvennabaráttu og telja að þótt réttur fólks eigi að vera jafn verði það ekki að hafa í för með sér jöfn kynjahlutföll á öllum sviðum. Og þeir gleyma því líka að þegar unnið er með slíkum hætti að því að koma konum á framfæri verður það til þess að þegar kona birtist í fjölmiðlum mun almenningur ósjálfrátt hugsa með sér að konan sé þar sem kona en ekki sem einstaklingur sem hafi eitthvað fram að færa.