Föstudagur 20. júní 2003

171. tbl. 7. árg.
Menningarstefna Reykjavíkurborgar er þegar til en því miður er hún í stærstum dráttum bara orð á blaði.
– Randver Þorláksson, formaður Félags íslenskra leikara, í grein um Reykjavíkurborg og Leikfélag Reykjavíkur, Morgunblaðið 7. maí 2003

Leikhúsmenn efndu til hátíðar í vikunni og verðlaunuðu þar ýmsa í sínum röðum fyrir vel unnin störf vetrarins. Hátíðin var glæsileg og sýnd í sjónvarpi svo aðrir mættu njóta með. Á eftir kjólum þeirra kvenna sem slíka hátíð sækja, beinist athygli áhorfenda oftast að því hverjir það eru sem eru heiðraðir. Að þessu sinni var það einnig annað atriði sem vakti nokkra athygli, en það var hverjir voru fengnir til að afhenda verðlaunin. Einn slíkur skar sig nefnilega talsvert úr hópnum. Þeir sem voru fengnir til að afhenda verðlaunin voru allir kunnir leikhúsmenn; þjóðleikhússtjóri, leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, þjóðkunnir leikarar og svo framvegis. Og svo komu þrír aðrir. Forseti Íslands, sem einnig er reyndar kunnur af leikaraskap, fyrrverandi forseti Íslands, sem lengi starfaði sem leikhússtjóri, og loks Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður!

Auðvitað mega einkaaðilar eins og þarna héldu hátíð fá hvern sem er til að troða upp; þess vegna hefðu þeir mátt láta Ragnar í álinu vera kynni kvöldsins ef þeir hefðu viljað. En þetta val þeirra er jafn fyndið þó það komi auðvitað ekki öðrum við. Af hverju allt í einu þessi tiltekni borgarfulltrúi og varaþingmaður? Ekki menntamálaráðherra, borgarstjóri, útvarpsstjóri eða Megas, nei, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Ætli það hafi verið gert svona í framhaldi af greinaskrifum formanns Félags íslenskra leikara sem taldi R-listann í Reykjavík standa sérstaklega illa við bakið á leikhúslífi í höfuðborginni? Eða eru stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar að fara á taugum yfir því að hún hafi nákvæmlega engan vettvang til að láta á sér bera og þá sé betra en ekkert að veita grímur?

En sennilega er skýringin önnur. Ingibjörg Sólrún var ekki þarna sem varaþingmaður og borgarfulltrúi. Hún hefur sennilega verið fengin sem leikhúsmanneskja. Hún er nefnilega ekki síður kunn að leikaraskap en margir þeir sem þarna voru verðlaunaðir í bak og fyrir. Hún er, rétt eins og hefðbundnir atvinnuleikarar, alvön því að koma fram og leika hlutverk sem aðrir hafa hannað. Hún er ekki síður kunn fyrir að grípa til spuna, hvenær sem kreppir að. Og hver er betur fallin til þess að veita öðrum grímuna, en sú sem í þrennum kosningum var gríma vinstri flokkanna í Reykjavík?