Miðvikudagur 18. júní 2003

169. tbl. 7. árg.

Þ

Nú er vilji innan ESB til að banna stjórnmálaflokka sem ekki fylgja „Evrópuhugsjóninni“.

að ruddi úr veginum „nei“-kosningum bæði Dana og Íra. Það neitaði að samþykkja lýðræðislega niðurstöðu austurrískra þingkosninga. Nú vinnur það að lagasetningu til þess að koma í veg fyrir að stjórnmálaflokkar sem efast um Evrópusamrunann geti fengið menn á Evrópuþingið. Á dögunum skrifaði Daniel Hannan, sem bæði er þingmaður á Evrópuþinginu og dálkahöfundur á The Sunday Telegraph grein í blað sitt og spurði hvað þyrfti til, svo menn sannfærðust um að Evrópusambandið væri andlýðræðislegt. Hannan segir að undanfarnar vikur hafi hann setið ásamt félögum sínum stjórnskipunarmálanefnd Evrópuþingsins og farið yfir tillögur að reglum sem Evrópusambandið vill setja um evrópska stjórnmálaflokka. Embættismennirnir í Brussel segja að nú þegar sérstök stjórnarskrá vofi yfir Evrópu sé í hæsta máta óeðlilegt að burðast með hundruð stjórnmálaflokka sem hver og einn reki einhverja baráttu „heima í héraði“.

Það verður allt að víkja í baráttunni fyrir stórríkinu. Nýir og nýir sáttmálar eru keyrðir í gegn og undantekningarlítið án þess að fólk í aðildarríkjunum fái að greiða atkvæði um þá. Ef það er hins vegar leyft þá eru sáttmálarnir felldir og þá verður að kjósa aftur þar til ný niðurstaða fæst og þá er aldrei kosið meir. Gjaldmiðlarnir urðu að hverfa og nú eru aðeins Bretar, Danir og Svíar sem enn halda í sína gömlu mynt, hvað sem þeir standa lengi gegn stórfelldum áróðri sameiningarsinna sem ætíð láta eins og sagan, þróunin og óumflýjanleikinn sé á þeirra bandi. Nú á röðin svo að koma að stjórnmálaflokkunum, enda hljómar hugmyndin um stjórnmálaflokk, sem aðeins starfar í einu aðildarlandi, mjög illa í eyrum höfðingjanna í Brussel. Samkvæmt hugmyndunum verður stjórnmálaflokkur ekki samþykktur inn á Evrópuþingið nema hann sé fulltrúi kjósenda í að minnsta kosti fjórða hverju aðildarríki, en þetta skilyrði myndi vitaskuld þrýsta stjórnmálaflokkum til að sameinast yfir landamærin gömlu með augljósum afleiðingum. Samkvæmt hugmyndunum munu stjórnmálaflokkar svo þurfa að samþykkja ýmsa sáttmála og síðast en ekki síst yrðu stjórnmálaflokkar að fá samþykki annarra flokka! Ef meirihluti þingmanna lýsti þeirri skoðun að einstakir stjórnmálaflokkar, sem þrátt fyrir allt hefðu náð kosningu á Evrópuþingið, væru ekki nægilega hlynntir mannréttindum og lýðræðisgildum, nú þá yrðu þeir að fara heim. Í nafni lýðræðisins.

„Þetta er nákvæmlega sama aðferðin og kommúnistarnir notuðu heima“, hefur Hannan eftir pólskum þingmanni um þessar hugmyndir. Þar hafi kosningar ekki verið bannaðar og í raun sífellt verið að kjósa. Andstöðuflokkar hafi ekki einu sinni verið bannaðir, þeim hafi bara verið bannað að bjóða fram í kosningunum. Það hafi verið lagt bann við því að „fasistar“ byðu fram, og sú skilgreining hafi svo áður um langt um hafi liðið verið komin yfir alla flokka nema kommúnista og stuðningsflokk þeirra.

Í grein sinni bendir Hannan á að það séu ósjaldan arftakar kommúnistaflokkanna og bandamanna þeirra sem nú berjast mest fyrir inngöngu austantjaldsríkjanna í Evrópusambandið, og spyr hvort verið geti að því ráði nostalgía sem grípi þá í hvert sinn sem þeir koma til Brussel. Innan Evrópusambandsins liggi meginvaldið ekki hjá þingmönnum heldur tuttugu manna æðstaráði. Félagar í þessu æðstaráði lifi forréttindalífi, séu undanþegnir hinum og þessum sköttum og ekið um í glæsikerrum. Þeir stjórni eftir fimmáraáætlunum og reyni að stýra málum niður í smáatriði, málum sem hæglega og betur mætti stjórna á lægra stigi. Hljómar þetta ekki heimilislega í eyrum félaga gömlu kommúnistaflokkanna í Austur-Evrópu?

En Hannan segir að auðvitað sé hægt að afsanna þessar kenningar sínar. Ef Evrópusambandið leyfi íbúum álfunnar að kjósa um þá stjórnarskrá sem nú á að setja yfir þá, þá skuli hann samþykkja hana möglunarlaust. En að öðrum kosti muni stjórnarskrá Evrópusambandsins hafa sama gildi og stjórnarskrá Sovétríkjanna.