Þriðjudagur 17. júní 2003

168. tbl. 7. árg.
Ég elska þig bæði sem móður og mey
sem mögur og ástfanginn drengur,
þú forkunnar tignprúða, fjallgöfga ey!
Ég fæ ekki dulizt þess lengur.
Þú háa meydrottning, heyr þú mig:
Af hug og sálu ég elska þig.
– Hannes Hafstein, Ástarjátning

Hann var átján ára gamall þegar hann orti svo til Íslands og með starfi sínu þá áratugi sem eftir fylgdu sýndi Hannes Hafstein hver hugur hafði fylgt máli. En þó Hannes hafi fylgt orðum sínum eftir af meiri þrótti en margir aðrir, þá er hann aðeins einn ótal Íslendinga, skáldmæltra sem annarra, sem hafa orðað slíkan hug til Íslands. „Hafnar úr gufu hér, heim allir girnumst vér, þig þekka að sjá“ orti Bjarni Thorarensen úr Kaupmannahöfn og hefði sjálfsagt orðið skjótur til svars ef hann hefði verið samtíða Huldu og heyrt hana spyrja hver ætti sér fegra föðurland. Og svo mætti lengi áfram telja.

„Þegar tilfinningin fyrir ættjörðinni dofnar verða ástarjátningarnar til hennar gífuryrtari“, skrifaði Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur í Fréttablaðið í gær, án þess þó að nefna dæmi um gífuryrtar ástarjátningar eða þá hvað hann vissi um tilfinningu annarra manna fyrir ættjörðinni. Sem kannski er ágætt, því óvíst er hvað Guðmundur Andri veit um aðrar tilfinningar en sínar eigin. Að minnsta kosti er hætt við því að Hannesi Hafstein hefði komið á óvart sú kenning að fáir hefðu daufari tilfinningu til ættjarðarinnar en einmitt hann. Og ef vit er í þessari staðhæfingu um samhengi tilfinningar og ástarjátninga til ættjarðarinnar, ætli þá sé ekki næst að setja fram sömu kenningu um til dæmis móðurmálið? Má ekki ætla að þar gildi sama reikniregla? „Ástkæra, ylhýra málið og allri rödd fegra!“ orti skáldið um „móðurmálið [sitt] góða“ svo þess er sjálfsagt skammt að bíða að það verði úrskurðað að fáir hafi haft daufari tilfinningu fyrir íslenskri tungu en Jónas Hallgrímsson. Og svo framvegis.

En nóg um Guðmund Andra og skoðanir hans á ættjarðarástarjátningum. Auðvitað líta ekki allir land sitt sömu augum frekar en annað, og ekki nema sjálfsagt að hver og einn sé frjáls að því að meta það eins og honum sýnist. Hver og einn er frjáls að láta í ljós hvort sem hann vill, ættjarðarást eða ættjarðartómlæti. Sumir láta sér hins vegar ekki nægja að horfa á land sitt með köldum augum jarðfræðingsins, heldur hafa ama af skoðunum þeirra sem sjá það í öðru ljósi. Vilja þeir gera sem minnst úr slíkum skoðunum, helst reyna að láta þær líta út fyrir að vera hlægilegar eða í það minnsta úreltar. Stundum skýrist þetta af stjórnmálaaðstæðum, en þeir sem til dæmis vinna að því að landið afsali sér fullveldi sínu og renni inn í erlent stórríki og taki upp nýja stjórnskipan, nýjan gjaldmiðil, nýjan fána og meira að segja nýjan þjóðsöng – þeir óttast auðvitað að sterk tilfinning samlanda þeirra fyrir eigin landi geti orðið fyrirstaða á leiðinni í nýja þúsundáraríkið. Slíkir menn hafa vitanlega sérstaka ástæðu til að amast við því að fólki sé eitt land kærara en önnur og ekki við öðru að búast en þeir nýti öll tækifæri sem þeim gefast til að grafa undan þeirri tilfinningu.

En vitanlega geta menn haft aðrar ástæður og jarðbundnari til að vilja standa vörð um fullveldi landsins. Menn þurfa ekki að vera gagnteknir ættjarðarást til að óa við þeirri tilhugsun að ókosnir erlendir skrifstofumenn ráði öllu því sem máli skiptir á Íslandi. Að ákvarðanir sem Ísland varða verði teknar í ljósi hagsmuna þeirra hundruða milljóna manna sem búa á meginlandi Evrópu. Að Ísland verði lokað inni í tollabandalagi og svipt möguleikum á frjálsum og óhindruðum viðskiptum við aðrar þjóðir en þær sem myndu deila með því kjörum innan múranna. Það er ekki óraunsæ þjóðernisrómantík heldur heilbrigð skynsemi sem býður að Ísland eigi að sækjast eftir frjálsum viðskiptum við öll ríki en forðast haftabandalög, eins og til dæmis Evrópusambandið, eins og heitan eldinn. Og þetta eru ekki ný sannindi. Það er langt síðan að baráttumenn fyrir íslenskum hagsmunum áttuðu sig á þessum einföldu staðreyndum. Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg! sagði mætur maður á sínum tíma, og þó einhverjum þyki kannski lítið púður í því að sækja ráðleggingar til þeirra sem hurfu úr þessum heimi fyrir meira en öld, þá er á hitt að líta að sjaldan er betur við hæfi að kynna sér viðhorf Jóns Sigurðssonar en einmitt þennan dag ársins.