Þriðjudagur 10. júní 2003

161. tbl. 7. árg.

M

Geta verið rök fyrir því að suma daga ársins megi aðeins kaupa matvöru á bensínstöðvum en ekki í matvöruverslunum?

eð vísan til laga um helgidagafrið lét lögreglan loka ákveðnum verslunum í Reykjavík síðast liðinn sunnudag. Ástæðan fyrir því að um þennan dag gilda aðrar reglur en um flesta aðra daga er sem kunnugt er sú, að síðast liðinn sunnudagur var hvítasunnudagur, sem er einn helsti hátíðisdagur kristinna manna. Í fyrrgreindum lögum er vísað til þess að þau eigi að vernda helgihald og tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar. Nú er út af fyrir sig jákvætt að kristnum mönnum sé tryggður friður til að stunda helgihald og engin ástæða til að heimila að ró þeirra sem vilja stunda helgihald í góðu næði sé raskað. Það er hins vegar álitamál hversu langt hægt er að ganga til að tryggja mönnum næði til helgihalds og í núgildandi lögum er gengið býsna langt.

Samkvæmt lögunum er eftirfarandi starfsemi óheimil á föstudeginum langa, páskadegi og hvítasunnudegi: Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, og opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Einnig markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi. Ýmsar undantekningar eru þó á því hvaða starfsemi er óheimil, meðal annars þær sem hér segir: Starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga. Það verður að segjast eins og er að ekki liggur í augum uppi hvers vegna sú starfsemi sem þarna er talin upp er heimil á fyrrnefndum dögum en ýmis önnur, til að mynda starfsemi matvöruverslana, er óheimil. Hvers vegna skyldi vera heimilt að leigja myndbandsspólu en óheimilt að kaupa ýsuflak? Og hvers vegna er heimilt að kaupa bensín en óheimilt að kaupa nýmjólk? Það sem meira er; hvernig má það vera að heimilt er að kaupa nýmjólk á bensínstöð en ekki í matvöruverslun?

Ef til vill er svarið við þessum spurningum það, að um einhvers konar málamiðlun sé að ræða milli þeirra sem vilji halda öllu lokuðu þessa helgidaga og hinna sem vilja að verslunareigendur megi sjálfir ráða hvenær þeir afgreiða viðskiptavini sína. Ósamræmið sýnir þó ef til vill ágætlega hve erfitt er að hafa reglur á borð við helgidagafrið þegar stór hópur manna vill ekki slíkar reglur og vill fá að ráða því sjálfur hvenær hann veitir eða nýtir sér tiltekna þjónustu. Meginatriðið hlýtur að vera það að menn ættu að fá að ákveða það sjálfir hvenær þeir eiga viðskipti sín á milli og með hvaða vörur eða þjónustu. Hið opinbera ætti engar slíkar reglur að setja. Ef einhver truflar annan með starfsemi sinni ætti að taka á því sérstaklega en ekki banna mestalla starfsemi með lögum.