Mánudagur 9. júní 2003

160. tbl. 7. árg.

B

Samkvæmt lögum er óheimilt að ræða opinberlega um tóbak nema til að vara við notkun þess. Hvenær skyldi verða refsivert að nota orðið vindlaveski?

andaríski landlæknirinn, Richard H. Carmona, hefur nú áunnið sér sess í sögunni, en að vísu ekki virðingarsess. Í vitnisburði sínum fyrir þingnefnd sagðist hann „styðja bann eða útrýmingu alls tóbaksvarnings“ og bætti við: „Ég sé enga þörf fyrir nokkurn tóbaksvarning í samfélaginu.“ Þessi ummæli landlæknisins eru lýsandi fyrir þá sem vilja ganga lengst í baráttunni gegn tóbaksnotkun. Þeir telja engin meðul of sterk í þeirri baráttu og frelsi manna til að ráða yfir sjálfum sér og lífi sínu skipta þessa menn engu. Þeir vita hvað öðrum er fyrir bestu og aðrir eiga að hafa sem minnst um það að segja.

Svipuð sjónarmið, þó þau gangi ekki alveg jafn langt, er að finna í íslensku tóbaksvarnarlögunum. Þar eru fyrirmæli og bönn varðandi bæði veitinga- og íbúðahús sem ekki fara saman við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Sem dæmi má nefna að íbúar fjölbýlishúss, þar á meðal tvíbýlishúss, geta ekki ákveðið að reykja megi í sameign hússins. Lögin banna íbúunum með öðrum orðum að reykja í anddyri hússins við opnar dyr, jafnvel þótt allir íbúarnir reyki og vilji reykja. Þeir mega hins vegar reykja inn í íbúðum sínum – enn sem komið er að minnsta kosti. En tóbaksvarnarlögin skerða ekki einungis eignarréttinn, þau skerða einnig tjáningarfrelsið. Þannig má ekki fjalla um tóbak opinberlega nema til að vara við notkun þess. Það er sem sagt til að mynda bannað að fjalla um ólíkar vindlategundir með svipuðum hætti og fjallað er um ólíkar víntegundir í blaðagreinum sem ætlaðar eru þeim sem vilja njóta þessara vörutegunda.

Menn sem eru helteknir af tilteknu máli, svo sem baráttunni gegn tóbaki, sjást ekki alltaf fyrir. Þeir gleyma því að fleira skiptir máli en baráttumál þeirra og þeir fara oft út í að krefjast aðgerða sem skerða réttindi annarra. Þeim finnst öllu fórnandi fyrir hinn góða málstað. Ef aðrir láta þá komast upp með þetta verða hugtök á borð við borgaraleg réttindi og einstaklingsfrelsi smám saman einskis virði.