Laugardagur 24. maí 2003

144. tbl. 7. árg.

Flatur 13% tekjuskattur á einstaklinga hefur verið samþykktur af úkraínska þinginu, Rada, sem þar með fetar í fótspor Rússa sem tóku upp slíkt tekjuskattskerfi fyrir tveimur árum. The Moscow Times sagði frá því í gær að mikill meirihluti þingmanna hefði samþykkt frumvarp þessa efnis og þar með fellt úr gildi fjölþrepa skattkerfi sem notast hefur verið við með litlum árangri. Í Úkraínu hefur sami vandi verið uppi og var í Rússlandi áður, almenningur vék sér undan greiðslu tekjuskattsins og skatttekjur voru því litlar. Talið er að neðanjarðarhagkerfi Úkraínu sé jafn stórt og hagkerfið sem er uppi á yfirborðinu og skattheimtumenn gera sér vonir um að eitt lágt þrep muni skila meiri tekjum en mörg þrep þrátt fyrir að hæsta þrepið hafi hingað til verið 40%.

Reynsla Rússa af einu lágu skattþrepi styður þessar væntingar. Í BusinessWeek var á dögunum sagt frá því að nýja tekjuskattskerfið í Rússlandi hefði aukið skatttekjur að raunvirði um 28% á milli áranna 2000 og 2001 og aftur um 21% í fyrra. Áður höfðu Rússar brugðist við háu skatthlutfalli með því að gefa ekki upp tekjur, en talið er að einungis fjórðungur tekna hafi verið gefinn upp áður en nýja kerfið kom til sögunnar. Ýmsir hafa horn í síðu flats tekjuskatts vegna þess að hann felur í sér að allir greiða sama hlutfall tekna sinna í skatt hvort sem þeir hafa háar eða lágar tekjur. Í könnun sem gerð var í Rússlandi kom hins vegar fram að fleiri voru hlynntir núverandi skattkerfi en kerfi þar sem skattbyrðin eykst með hækkandi tekjum. Ef til vill er skýringin sú að Rússar hafa kynnst því hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkið hyggst jafna kjör allra landsmanna.