Föstudagur 23. maí 2003

143. tbl. 7. árg.

Forystumenn launþegasamtakanna hafa einhverja allt aðra hagsmuni í huga en hagsmuni launamanna. Efist einhver um þessa fullyrðingu þarf hann ekki annað en hlusta á viðbrögð þeirra við áformum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir, en framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands og formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafa deilt hart á ríkisstjórnina fyrir að voga sér að ætla að lækka skatta á almenning í landinu. Báðir fara geyst í málflutningi sínum, tala um „slys“ og láta eins og um sé að ræða einhverja mestu atlögu að launafólki sem um getur. Hvert er svo „slysið“ sem ríkisstjórnin boðar? Jú, hún ætlar að leyfa sér að lækka tekjuskatt, virðisaukaskatt og erfðafjárskatt. Og ósvífnin er slík að hún ætlar að fella niður eignarskatt. Ja, hún er ekki lítil ógæfan sem launamenn í landinu standa frammi fyrir.

En hvernig skyldi nú standa á því að talsmenn launamanna láta út úr sér orð eins og „slys“ þegar verið er að lækka álögur á launamenn, bæði beinar álögur og óbeinar? Getur verið að ástæðan sé sú að talsmenn launamanna, verkalýðsrekendurnir, þurfi ekkert að líta til hagsmuna launamanna og geti farið sínu fram án tillits til skoðana umbjóðenda sinna? Það skyldi þó ekki vera. Alkunna er að verkalýðshreyfingin er þannig upp byggð að almennir launamenn hafa lítið um það að segja hverjir veljast í forystu fyrir þá. Lýðræði er með öðrum orðum afskaplega lítið virkt í verkalýðshreyfingunni og þar stjórna frekar klíkur en félagsmenn. Þetta er önnur ástæðan fyrir því að verkalýðsrekendur komast upp með að tala gegn skattalækkunum á almenning.

Hin ástæðan fyrir því að verkalýðsrekendur hugsa ekki um hagsmuni félagsmanna sinna er að félagsmennirnir geta ekki hætt þátttöku í félaginu. Launamenn eru neyddir til að greiða til verkalýðsfélaga hvort sem þeir telja að þau gæti hagsmuna þeirra eða ekki. Raunar er það svo að fyrir launamenn er greiðslan til verkalýðsfélagsins ekkert annað en verkalýðsfélagsskattur. Þeir greiða til félagsins hvort sem þeim líkar betur eða verr og hvort sem þeir telja félagið eða forystu þess standa sig vel eða illa. Verkalýðsrekendur eru vel meðvitaðir um þetta og vita vel að þeir taka enga áhættu með því að misnota stöðu sína til að berjast fyrir pólitískri sannfæringu sinni í stað þess að vinna að hagsmunum félagsmanna.