Helgarsprokið 25. maí 2003

145. tbl. 7. árg.

Ístjórnmálaumræðunni er hinu og þessu haldið fram og stundum rata undarlegustu hugmyndir fram í kastljósið og hver á eftir öðrum endurtekur þær og það án þess að nokkur geti bent á ástæður skyndivinsælda þeirra eða sé krafinn nokkurs rökstuðnings. Í liðinni viku voru slíkar hugmyndir, eða kenningar, fyrirferðarmeiri en oft, enda var þá skipt um ríkisstjórn og snakkarar allra fjölmiðla því önnum kafnir við að tjá sig. Framsóknarmegin í ríkisstjórninni vakti mesta athygli að Árni Magnússon, handritasafnari og bæjarfulltrúi í Hveragerði, var skipaður félagsmálaráðherra. Sama kvöld og nýja ríkisstjórnin tók við völdum mættu formenn stjórnarflokkanna til viðtals í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og höfðu varla fengið sér sæti þegar alvarlegur fréttamaður spurði formann Framsóknarflokksins hvernig hann réttlætti fyrir sér og öðrum að hafa með þessu gengið fram hjá reyndum þingmanni eins og Jónínu Bjartmarz.

„Þessi tiltekni þingmaður er sennilega opnari fyrir nýjungum en margir starfsfélagar hennar og gæti orðið frjálslyndum viðhorfum talsverð lyftistöng. Og það þykir Vefþjóðviljanum vera góð röksemd fyrir ráðherradómi. Sem aldur, kyn og fjölmiðlaframkoma eru hins vegar ekki.“

Já, Jónína er svo þaulreyndur þingmaður að menn bara velta því fyrir sér hvernig nokkur maður fái réttlætt það fyrir sjálfum sér, hvað þá öðrum, hvernig ganga megi fram hjá henni. Fréttamaðurinn rakti nú ekki reynslu Jónínu en ef miðað er við alvörusvipinn þá er Jónína með alreyndustu þingmönnum Framsóknarflokksins. Starfaði lengi með Jónasi á sínum tíma, þó hún hafi reyndar hugleitt að fylgja Tryggva yfir í Bændaflokkinn enda hafði hún alltaf fyrirvara gagnvart Ásgeiri. Hún var lengi handgengin Eysteini en þau Hermann áttu aldrei skap saman enda Jónína tortryggin í hans garð allt frá kollumálinu. Nánust var hún jafnan Ólafi Jóhannessyni þó hann hafi mátt vera meiri Sambandsmaður eins og hún segir í drögum að ævisögu sem hún og Dagur Eggertsson hafa í smíðum. Jónína er því, eins og ótal fréttaskýrendur hafa bent á síðustu viku, þrautreyndur þingmaður.

Nema reyndar það að Jónína Bjartmarz varð fyrst alþingismaður árið 2000, þegar Finnur Ingólfsson varð seðlabankastjóri.

Annað skemmtilegt undanfarna daga er sú einróma kenning, sem mjög var haldið fram í síðustu viku, að tiltekin kona, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eigi að verða ráðherra og væri mjög fram hjá henni gengið að öðrum kosti. Eftir að ráðherraval flokksins var svo tilkynnt hafa fjölmargir svo fagnað því að gert er ráð fyrir að kona þessi verði ráðherra innan tíðar. Vel má vera að hún muni reynast vel sem ráðherra, Vefþjóðviljinn er meira að segja frekar bjartsýnn á það, svona þannig lagað. En allir þessir álitsgjafar sem boðuðu nauðsyn ráðherradóms hennar, kannast nokkur við að þeir hafi rökstutt hann einu orði? Jú, þeir sögðu að það yrði hagstætt fyrir þennan stjórnmálaflokk að gera konu í yngri kantinum að ráðherra, en komu nokkrar aðrar röksemdir? Svona af því að sett var fram svo skýr krafa um þetta, þá hefði kannski mátt vænta einhverra annarra röksemda.

Þessi tiltekni þingmaður, sem nú er væntanlegur ráðherra, hefur setið á alþingi eitt kjörtímabil og verður varla sagt að hann hafi sinnt stjórnmálastörfum að ráði þar fyrir utan. Og allt í lagi með það, ekkert við það að athuga að fleiri verði ráðherrar en pólitískar vélar sem ekkert hafa gert annað en sitja fundi, bera stóla, sleikja frímerki og bera út bæklinga allt frá barnsaldri. En þessi pólitíski ferill, eða kannski skortur á honum, setur kröfur stuðningsmanns ráðherrans verðandi í nokkuð sérstakt ljós, einkum þegar á hann er horft í samhengi við að þingmaðurinn hafði ekki vakið neina sérstaka athygli áður en hún settist á Alþingi fyrir fjórum árum. Á síðasta kjörtímabili hefur hún hins vegar verið iðin við að koma fram í umræðuþáttum og komið vel fyrir, verið viðkunnanlegur og geðfelldur fulltrúi síns flokks. Og sennilega er það sú ágæta sjónvarpsframkoma sem hefur fengið flesta til að mæla með því að þingmaður þessi verði ráðherra.

Og það er ósköp skiljanlegt. Það skiptir máli hvernig forystumenn flokka koma fram í fjölmiðlum. Hinn almenni borgari stendur ekki í því að reyna að kynna sér ýtarlega hversu vel eða illa einstakir þingmenn og ráðherrar standa. Og ætti erfitt með það, þó hann reyndi. Það eru nokkur mál sem fréttamenn gera að stórmálum sem ráða miklu um það hvort ráðherra nýtur álits eða ekki. Ef hinn almenni kjósandi ætlaði sér til dæmis að bera saman Sturlu Böðvarsson og Valgerði Sverrisdóttur þá er ekki ósennilegt að honum dytti fyrst í hug að álver væri væntanlegt austur á firði, en Landssíminn sé ennþá óseldur. En hve mikið ætli þau Sturla og Valgerður hafi í raun haft um þessi málalok að segja? Og hvernig er með öll þau önnur verkefni sem eflaust hefur verið unnið að í ráðuneytum þeirra, hvernig getur hinn almenni maður metið þau? Hann getur það bara almennt ekki. Hann verður að miða við þessi fáu stórmál sem komast í fjölmiðla, og svo getur hann miðað við frammistöðu ráðherranna í almennum umræðum. Og þegar ráðherrar verða flestir metnir eftir yfirborði þá er ekki undarlegt þó kröfur um ráðherratign handa einstökum þingmönnum byggist ekki síst á því sem er á yfirborðinu.

Tökum sem dæmi þingmann sem enginn heimtaði að yrði ráðherra, Einar K. Guðfinnsson. Hann hefur verið þingmaður í tólf ár og hefur beitt sér fyrir fjölmörgum málum og verið virkur í almennri stjórnmálabaráttu mun lengur. Settist fyrst í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna árið 1975 svo dæmi sé tekið. Engum datt í hug að hann yrði að verða ráðherra. Kannski hefur mönnum ekki líkað við málflutning hans á liðnum árum. Kannski töldu menn að hann myndi ekki ráða við að stýra ráðuneyti. Og kannski var málið bara að hann er vestfirskur karlmaður á fimmtugsaldri, og hver vill svoleiðis ráðherra? Enginn sem vill vera nútímalegur og flottur.

Það þýðir auðvitað ekkert að taka fram að Vefþjóðviljinn er alls ekkert ósáttur við að þessi tiltekna kona verði ráðherra nú innan skamms. Þó staðreyndin sé sú að blaðið gerir sér vonir um að hún muni standa fyrir ýmsum umbótum innan þess málaflokks sem henni verður trúað fyrir, þá mun auðvitað enginn trúa því. Þessi tiltekni þingmaður er sennilega opnari fyrir nýjungum en margir starfsfélagar hennar og gæti orðið frjálslyndum viðhorfum talsverð lyftistöng. Og það þykir Vefþjóðviljanum vera góð röksemd fyrir ráðherradómi. Sem aldur, kyn og fjölmiðlaframkoma eru hins vegar ekki.