Helgarsprokið 27. apríl 2003

117. tbl. 7. árg.
Frelsið glatast sjaldan allt í einu.
– David Hume

Orð eru til alls fyrst er iðulega viðkvæði þeirra sem vilja ná fram vilja sínum og þess vegna er full ástæða til að taka það alvarlega þegar hugmyndir eru viðraðar um að takmarka frelsi fólks. Slíkar hugmyndir heyrast oft og sumar verða á endanum að lögum eða öllu heldur ólögum. Íslensk dæmi um þetta eru reglur sem banna notkun tiltekins neftóbaks, lög sem skylda menn til að spenna á sig bílbelti og lög sem banna fjárhættuspil. Þeir sem vilja geta um frjálst höfuð strokið og kæra sig ekki um að aðrir setji þeim reglur um hluti sem eru í eðli sínu þannig að engra reglna er þörf, ættu að bregðast illa við þegar hugmyndir um að takmarka frelsi einstaklinganna eru settar fram. Þetta á ekki aðeins við þegar frelsisskerðingin snertir þá beint, heldur ætti þetta að vera grundvallarafstaða. Ástæðan er ekki aðeins sú að menn eigi jafnan að breyta rétt og taka rétta afstöðu, af þeirri einföldu ástæðu að það sé sjálfsagt. Ástæðan er einnig sú að ef þeir sem vilja fremur frelsi en helsi berjast ekki gegn hverri viðleitni stjórnlyndra manna til að takmarka frelsið, þá mun fyrr eða síðar koma að því að reynt verður að takmarka frelsið á því sviði sem þeir myndu síst vilja. Staðreyndin er nefnilega sú að það er sífellt verið að reyna að skerða frelsi manna og frelsið glatast smátt og smátt, skref fyrir skref.

„Jú, þeir eru raunar til sem láta sér koma til hugar að banna ungmennum að innbyrða hamborgara og annan skyndimat og auðvitað af tómri greiðasemi við ungmennin.“

Sumar hugmyndir virðast svo sem það vitlausar að fáir nenna að taka á móti þegar þær eru settar fram og má nefna hugmynd framkvæmdastjóra Manneldisráðs (!) um sérstakan gosdrykkjaskatt sem dæmi um slíka hugmynd. Það dettur vonandi engum manni í alvöru í hug að leggja slíkan skatt á. Ef menn tækju þessa hugmynd alvarlega þá gætu þeir næst farið að búast við hugmyndum um að banna gosdrykki af heilsufarsástæðum. Eða að minnsta kosti að banna ungmennum að neyta gosdrykkja, en slík hugmynd væri nú alveg fráleit. Eða hvað, er fráleitt að láta sér detta í hug að banna ungmennum að drekka kók eða appelsín? Það er líklega svona ámóta fráleitt og að láta sér detta í hug að banna þeim að borða hamborgara af þeirri ástæðu að ungmennin safni óþarfa holdi af hamborgaraátinu. Og engum dytti nú í hug að banna ungmennum að borða hamborgara!

Jú, þeir eru raunar til sem láta sér koma til hugar að banna ungmennum að innbyrða hamborgara og annan skyndimat og auðvitað af tómri greiðasemi við ungmennin. Ekki er vitað til að slíkir menn hafi komist í áhrifastöður hér á landi ekki enn að minnsta kosti en í The New Zealand Herald var fyrir helgi greint frá því að slíkir menn hafi hreiðrað um sig í heilbrigðisráðuneyti Nýja Sjálands og ræði þar hugmyndir um að setja í lög bann við að selja ungmennum mat sem talinn er óhollur. Aðrir möguleikar sem eru til umræðu í þessu erlenda ráðuneyti eru þeir að setja hömlur við fjölda staða sem selja „óhollan“ mat, að takmarka stærð þeirra eða að setja reglur um staðsetningu þeirra. Einn talsmanna þessara hugmynda segist telja lagasetningu um þetta afar brýna og lagði máli sínu til stuðnings áherslu á að ungmenni væru að þyngjast.

Það má lengi finna röksemdir til stuðnings því að skerða frelsi manna og ein sú vinsælasta er einmitt að vísa til barna. Hver getur verið á móti því að vernda börn? Líklega ekki nokkur maður, og allra síst stjórnmálamenn sem vilja líta vel út í augum kjósenda og vilja fátt síður en að almenningur álíti að þeim sé sama um heilsufar barna. Menn verða hins vegar jafnan að velta því fyrir sér til hvers það mun leiða að setja sífellt fleiri reglur sem takmarka frelsi fólks. Hugmyndin um að banna ungmennum að borða hamborgara kann að hljóma vel í fyrstu, en þegar betur er að gáð verður ekki hjá því komist að sjá að með því að bæta stöðugt við nýjum boðum og bönnum verður á endanum ekkert eftir af frelsinu. Næsta skref væri að skylda börn til að borða tiltekinn mat og svo mætti setja þeim reglur um lágmarksklæðnað svo þeim yrði ekki of kalt og legðust veik. Og þá væri vitaskuld stutt í að takmarka aðgang fullorðinna að skyndimat, enda ástæðulaust að leyfa fullorðnum að blása út eða stífla kransæðar með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Það eru með öðrum orðum engin takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga ef menn fallast á rökin fyrir því að banna börnum að borða hamborgara, pítsur eða pylsur.

Valið stendur á milli þess að búa í þjóðfélagi þar sem frelsið er reglan, eða í þjóðfélagi þar sem ríkið setur reglur um alla hluti og frelsið er marklaust orð.