Hann má hafa bæði augu og eyru vandlega aftur, sá maður sem ekki hefur tekið eftir því hversu forkólfar Samfylkingarinnar reika nú til og frá í málflutningi sínum. Það er eitt sagt í dag, eitthvað allt annað var uppi á teningnum í gær og það veit sá sem allt veit að hvorugt mun passa við það sem boðað verður af festu og þunga á morgun. En svona er þetta bara, það er alltaf verið að birta nýja og nýja skoðanakönnun um einhver mál svo Samfylkingarforystan hefur varla undan við að koma sér upp nýjum og nýjum áherslum. Nú heldur kannski einhver að þessar aðferðir séu nýtilkomnar, eitthvað sem menn grípi til þegar líður á kosningabaráttu og fylgið lætur á sér standa. En svo er nú aldeilis ekki. Staðreyndin er sú að sumir eru einfaldlega þannig gerðir að þeir segja bara það sem þeim dettur í hug, og kannast svo ekki við neitt ef illa fer, jafnvel örfáum dögum síðar. Þeir sem muna aftur í tímann þekkja þetta vel, en hugsanlega þætti til dæmis yngstu kjósendunum forvitnilegt að líta til baka og rifja upp hversu Samfylkingarforystunni eru þessi vinnubrögð töm.
Lítum þá til dæmis svo langt aftur sem til ársins 1986 en þá reyndu kempur eins og Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að knésetja meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur sem Davíð Oddsson nokkur fór fyrir. Nokkrum dögum fyrir kosningar, hinn 26. maí nánar til tekið, var haldinn framboðsfundur þar sem ekki ómerkari maður en Össur Skarphéðinsson hélt mikla tölu og tilkynnti hvert yrði forgangsverkefni hans og félaga hans ef þau kæmust í meirihluta. Orðrétt sagði Össur Skarphéðinsson:
„Og svo ætlum við að byrja á því, sem við gerðum ekki illu heilli síðast, þegar við náðum borgarstjórnarmeirihluta, og það er að fæla alla embættismenn borgarkerfisins úr starfi. Mér er alveg sama, hvert við sendum þá; í öskuna eða látum þá sópa götur eða bara rekum þá. Þeir unnu skemmdarverk á síðasta kjörtímabili vinstri meirihlutans, og burt skulu þeir.“
Og nótabene, það eru Össur Skarphéðinsson og álíka fuglar sem saka aðra um ofstopa gagnvart embættismönnum! En hvað um það, þessi ummæli Össurar gerðu ekki eins mikla lukku og hann og félagar hans hafa sjálfsagt haldið, og kvöldið fyrir kosningar, hinn 30. maí, var Össur spurður um þau. Og hverju ætli Össur Skarphéðinsson hafi þá svarað? Flestir myndu ætla að við þessar aðstæður ættu menn aðeins tvo möguleika. Annað hvort að standa við sitt og reyna að verja þessar hótanir með einhverju móti. Eða þá, og það hefðu nú flestir sennilega ráðlagt, að draga þær til baka og biðjast afsökunar á þeim. En nei, Össur Skarphéðinsson hafði þá þegar uppgötvað Samfylkingaraðferðina. Hann bara neitaði að hafa sagt þetta; rétt eins og hann og félagar hans neita nú hverju sem blasir þó við flestum öðrum. Rétt eins og þeir neita nú að skattar hafi verið lækkaðir eða kaupmáttur aukist verulega, þá bara neitaði Össur því að hafa nokkurn tíma sagt að borgarstarfsmenn yrðu reknir við fyrsta tækifæri. Orðrétt sagði núverandi formaður Samfylkingarinnar:
„Alrangt. Þetta hef ég nú aldrei sagt. Það var haft eftir mér þannig, að ég hygðist þar færa starfsmenn ef í nauðir ræki til í starfi.“