Ein af þeim bábiljum sem Samfylkingarforystan hefur reynt að koma á gang á undanförnum vikum, svona frekar en að ræða eigin stefnu eða málefni, er sú kenning að andstæðingar hennar í Sjálfstæðisflokknum „hamist á“ þeim sem sjálfstæðisfólki líki ekki. Eigi þetta við um ýmsa þá sem höllum fæti standa eins og til dæmis forseta Íslands og biskupinn yfir Íslandi auk margra helstu eignamanna landsins. Ekki síður reyna Samfylkingarmenn að telja fólki trú um að sjálfstæðismenn ofsæki skáld og rithöfunda sem þeim líki ekki við, þó dæmin um það séu nú vægast sagt klén. Samfylkingarmenn í rithöfundastétt hafa árum saman gagnrýnt ekki aðeins Sjálfstæðisflokkinn sem stjórnmálaflokk heldur forystumenn hans afar persónulega en aldrei fengið nein sérstök viðbrögð. Allir þessir „ofsóttu“ rithöfundar eru meira að segja á sífelldum „starfslaunum“ hjá hinu opinbera svo ekki virðast stjórnvöld reyna að nota þau sem svipu á þá. Það segir líka meira en mörg orð, að allar „ofsóknirnar“ sem þessi hópur manna hefur orðið fyrir undanfarna áratugi eru að einu sinni var það eitt sagt að „athyglisvert“ væri að maður nokkur kynnti sig sem hann væri á vegum þjóðkirkjunnar þegar hann skrifaði smásögu eina, og í hitt skiptið leyfði forsætisráðherra sér að spyrja rithöfund einn hvort hann tryði í raun þeim ásökunum sem hann hafði borið fram í blaðagrein. Og þar sem rithöfundurinn svarar ekki síma þá hafði ráðherrann látið senda honum tölvupóst með þeirri fyrirspurn hvort rithöfundurinn væri til í að hitta ráðherrann í kaffi! Það var nú allt og sumt, en Samfylkingin hefur talað um þetta í hálft ár.
En það eru til stjórnmálaöfl sem bregðast illa við ef skáld og listamenn eru þeim ekki þóknanleg. En þessi öfl eru og hafa verið vinstra megin, en ekki hægra megin í stjórnmálum. Þetta er gömul saga og ný og dæmin eru fjölmörg. Kannski er rétt að hverfa fyrst nokkuð aftur í tímann, svona til að rifja upp að þessi tilhneiging vinstri manna er ekki ný af nálinni. Gott og vel, lítum þá aftur til ársins 1986, en þá var kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur og höfðingjar eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson reyndu allt til að knésetja meirihluta sjálfstæðismanna, sem borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, fór fyrir. Réðust þau að sínum hætti mjög persónulega að borgarstjóranum og reyndu að láta kosningarnar snúast um persónu hans. Bar það þá til að nokkrir þjóðkunnir listamenn skrifuðu undir yfirlýsingu sem birt var í Morgunblaðinu þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við Davíð. Og það var eins og við manninn mælt. Vinstrimenn gengu af göflunum.
Vinstri menn ærðust svo mjög, að það var sérstaklega rætt í útvarpsþætti Hallgríms Thorsteinssonar nokkrum dögum eftir kosningarnar. Hallgrímur sagðist hafa heyrt „aldeilis hrikalegan munnsöfnuð“ notaðan um þetta listafólk og ræddi í þættinum við einn þeirra sem skrifað hafði undir umrædda yfirlýsingu, Þórarin Eldjárn rithöfund. Þórarinn sagði að margir hefðu haft samband við sig vegna yfirlýsingarinnar og væri það yfirleitt fólk í tengslum við Alþýðubandalagið og væri það sammerkt með öllu þessu fólki að það teldi sig hafa að minnsta kosti jafnmikinn ef ekki meiri ráðstöfunarrétt yfir atkvæði hans en hann sjálfur. Þórarinn Eldjárn sagði að hann og fleiri sem skrifað höfðu undir stuðning við Davíð Oddsson hefðu orðið varir við það að yfir þeim væri einhvers konar eignarréttur og hefði hann meðal annars verið spurður að því hvað hann hefði fengið borgað fyrir stuðninginn! Orðrétt sagði Þórarinn Eldjárn:
„Þetta fólk getur ekki hugsað sér, að maður taki afstöðu út af neinu öðru en að maður fái eitthvað fyrir. Og um leið er það gefið upp, hver er valútan sem það lætur í staðinn. Það er til dæmis hylli og það er skrifað vel um mann og það er sagt að maður sé gott skáld. Munstrið ruglast, og þá er maður það ekki lengur.“
Og það hefur ekki margt breyst síðan þá. Það er enn sama fólkið sem fer fyrir íslenskum vinstri mönnum. Það eru enn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson sem reyna allt sem þau geta til að knésetja erkióvin sinn, Sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddsson. Og þau trúa því aldrei að annað fólk geri neitt af ærlegum hvötum. Þau sjálf trúa því alltaf að aðrir taki afstöðu vegna einhverra hagsmuna. Þau sjálf skipta öllum í vini og óvini og þess vegna halda þau að allir aðrir geri það líka.
Og ef einhver heldur að íslenskir vinstri menn hafi breyst, þá skulum við hverfa nær í tíma og líta á annan rithöfund sem varla er grunaður um að vera í áróðurssveit íslenskra hægri manna. Í fyrra skrifaði Hallgrímur Helgason grein í tímarit sem lengi hét Tímarit Máls og menningar:
Ég varð þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi í vetur að Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði hólgrein um bók eftir mig í Morgunblaðið. Málefni greinarinnar var reyndar að mestu fremur sjálfsögð fordæming á alltof áralöngum stalínisma Halldórs Laxness; sorglegum þætti í ævi stórskálds, sem allir gætu tekið undir, en greinin var skrifuð af röngum manni; hann var einn af „hinum“. Dagana á eftir leið mér eins og ég væri skyndilega orðinn stórhættulegur smitberi. Gömlu kunningjarnir, þessar þægilega kratíseruðu vinstri-sálir, hlupu út í horn þegar þeir sáu mig. Vildu helst ekki þurfa að tala við mig. Ein sú stórundarlegasta og miður skemmtilegasta tilfinning sem ég hef upplifað. I had been touched by evil. |