Miðvikudagur 23. apríl 2003

113. tbl. 7. árg.

Það bar til í vikunni að Ögmundur Jónasson alþingismaður og formaður BSRB kvartaði hástöfum yfir því að þrír nafngreindir stjórnmálafræðiprófessorar, Ólafur Þ. Harðarson, Gunnar Helgi Kristinsson og Svanur Kristjánsson, færu núna á milli fjölmiðla og rækju þar erindi Samfylkingarinnar, en allt undir yfirskini fræðimennskunnar. Nú var Ögmundur ekki að segja áhugamönnum um þjóðmál neinar fréttir, þeim mun flestum þykja meira undrunarefni hversu lengi fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið endast til að leita álits Svans Kristjánssonar á atburðum stjórnmálanna og kynna hann jafnan sem hlutlausan fræðimann. Sérstaklega er áróðursþátturinn „Spegillinn“ iðinn við þennan kola, en sá þáttur er auðvitað sérstakt furðuverk. Svanur sjálfur virðist reyndar líta öðru vísi á stöðu mála en í fréttum Ríkissjónvarpsins sagði hann sig og félaga sína einfaldlega vera að leita „sannleikans“.

Þessi siður fréttastofu Ríkisútvarpsins að leita í sífellu til Svans Kristjánssonar sem hlutlauss fræðimanns er reyndar með slíkum ólíkindum að því verður varla trúað að hann sé iðkaður í góðri trú. Þeir sem fylgjast með þjóðmálum af einhverri alvöru vita að Svanur Kristjánsson er einn allra heitasti Samfylkingarmaður landsins. Ákafi Svans í stuðningi sínum við Samfylkinguna er slíkur að hann var næstum kominn í framboð til formennsku í flokknum fyrir nokkru. Eins og Svanur lýsti sjálfur í viðtali við hið merka blað, Dag, þá hafði hann kvatt sér hljóðs á fundi innan Samfylkingarinnar og haldið þar það sem hann sjálfur lýsti sem „eldmessu“. Fer ekki milli mála að prófessornum hefur verið talsvert niðri fyrir, því að öðrum kosti myndi hann ekki líkja eigin tölu við frægustu ræðu sem haldin hefur verið á Íslandi. Í viðtalinu við Dag í janúar 2000 lýsir Svanur frammistöðu sinni á fundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur með þessum látlausu orðum:

„Ég hélt þar mína „eldmessu“ enda var mér mikið niðri fyrir og ég talaði lengi. Auk upprifjunar á gagnrýni minni lagði ég fram hugmyndir sem ég tel að taka eigi upp í starfi Samfylkingarinnar og þá ekki síst í sambandi við komandi stofnfund. Ég fann að það var mikil stemmning fyrir því sem ég var að segja í lok fundarins og ég fékk góðar undirtektir. Fólk gekk af fundi með bros á vör og ánægt með hugmyndirnar sem ég viðraði. En svo gerðist það sem ég átti ekki von á. Fólk hafði samband við mig eftir fundinn og spurði mig hvers vegna ég gæfi ekki kost á mér til formennsku til þess að framkvæma þessar hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina, sem ég væri að leggja fram og sögðust skyldu styðja mig til þeirra verka.“

Þannig talar sem sagt prófessorinn sem fréttastofa Ríkisútvarpsins – nú og auðvitað Fréttablaðið – eru sífellt að fá til að tjá sig um mál annað hvort Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokksins. Það er nú bara maður sem heldur slíkar eldmessur um Samfylkinguna að flokksfólk hefur umvörpum samband við hann að hvetja hann til formennsku í flokknum!

Og þegar þetta er rifjað upp, þá rifjast margt annað upp með, svo sem hið óvenjulega mál sem rakið var hér í Vefþjóðviljanum fyrir nokkru; það er að segja þegar lögmenn Háskóla Íslands gáfu rektor það rökstudda álit sitt að „að Svanur Kristjánsson [væri] vanhæfur til að fjalla um mál innan stjórnmálafræðinnar sem varða hagsmuni Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.“ Er sennilega einstætt að einn prófessor þyki svo heiftúðugur í garð annars að lögmenn Háskólans telji hann beinlínis vanhæfan til að fjalla um mál sem hann varða. En Svanur er auðvitað alltaf Svanur.