Þriðjudagur 22. apríl 2003

112. tbl. 7. árg.

Hafin yfir allan grun
er þín fræga klausa:
Ég hef eðlisávísun,
innistæðulausa.

– Þórarinn Eldjárn

Ef nokkur Íslendingur, lífs eða liðinn, hefur ástæðu til að hafa lokaorð þessa erindis yfir, þá er það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem þessa dagana er auglýst í öllum blöðum sem kona og forsætisráðherraefni. Undanfarnar vikur hefur hún farið um með málflutning af því tagi sem fólk var hætt að búast við í íslenskri stjórnmálaumræðu. Þegar almenn málefni hafa komið til tals hefur Ingibjörg talað af óvenjulegri vanþekkingu á öllum helstu málaflokkum, ruglað saman hugtökum, ekki þekkt stærðir og tölur og á ýmsum sviðum virst alveg ókunnugt um þær reglur sem gilda í landinu. Þegar svo bæði henni og velflestum öðrum var orðið þetta ljóst, tók hún að einbeita sér að dylgjum um keppinauta sína, sjáanlega í þeim tilgangi að reyna að hindra að þeir fái notið þess trausts sem þeir hafa unnið sér inn og hún virðist hafa gefið upp alla von um að leika eftir.

Muna ekki flestir eftir söngnum sem hún hóf í vetur um að það væri „nauðsynlegt að setja skýrar og gegnsæjar leikreglur á Íslandi“? Þetta tóku lofsöngvarar hennar strax undir og töldu mjög faglega ábendingu hins málefnalega stjórnmálamanns. Aðrir reyndu að vísu að benda á að á undanförnum árum hefðu slíkar reglur einmitt verið settar, og skoruðu á Ingibjörgu að koma nú með eins og eina tillögu að nýrri reglu. Engin slík tillaga hefur komið frá henni, enda er aldrei neitt fast í hendi hjá umræddum frambjóðanda. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fer frá einum frasanum til annars og allt er jafn innistæðulaust. Hana grunar að það þurfi að setja reglur, en veit bara ekki hverjar.

Í páskablaði Morgunblaðsins birtist fróðleg grein um þessi málefni eftir Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Davíð Þór er ekki einungis lagaprófessor hér heldur hefur hann á undanförnum árum starfað við EFTA-dómstólinn og hefur því mikla reynslu í að bera saman þær leikreglur sem gilda í löndum heims. Niðurstaða prófessorsins var fróðleg fyrir alla þá sem um stund kunna að hafa talið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur forsætisráðherraefni tala af viti. Hann segir einfaldlega að undir ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar hafi verið „eitt mesta framfaraskeið Íslandssögunnar að því er varðar bætta réttarstöðu þegnanna og gegnsæi ákvarðanatöku í opinberu lífi.“

Davíð Þór Björgvinsson nefnir fjölmörg lög og reglur sem sett hafa verið á undanförnum árum, og rekur hvernig þau hafa haft mikil áhrif, hvert á sínu sviði. Upptalning prófessorsins er skemmtileg í ljósi órökstuddra fullyrðinga Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um það að nú þurfi að fara að setja almennar leikreglur. Eigum við að grípa niður í einstakar niðurstöður prófessorsins?

  • „Dómstólar eru borgurum öruggara skjól en áður“
  • „Þetta hefur, ásamt þróun í dómaframkvæmd, bætt mannréttindavernd á Íslandi og aukið á réttaröryggi borgaranna.“
  • „Lögin hafa valdið straumhvörfum í opinberri stjórnsýslu á Íslandi.“
  • „Lögin hafa aukið til muna gegnsæi í opinberri stjórnsýslu og um leið aukið réttaröryggi þegnanna í samskiptum við hið opinbera.“
  • „Með gildistöku laganna varð grundvallarbreyting, m.a. til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.“
  • „Öll þessi löggjöf hefur stórum aukið gegnsæi í viðskiptum með verðbréf á Íslandi og í raun lagt grunninn að íslenskum verðbréfamarkaði. Hún leiðir til stórbættrar stöðu almennings og greiðir fyrir þátttöku hans í viðskiptum með verðbréf.“
  • „Reglur þessar þrengja til mun[a] svigrúm stjórnvalda til að draga taum einstakra fyrirtækja.“
  • „Margt fleira mætti nefna frá fyrrgreindu tímabili sem horft hefur til aukins réttaröryggis og traustari stöðu einstaklinga svo sem nýskipan lögreglumála, ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ný lögræðislög og ný barnaverndarlög, margvíslegar breytingar á hegningarlögum o.s.frv. Listinn er í raun mjög langur og ekki unnt að gera honum fullnægjandi skil í þessari stuttu grein.“

Og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er búin að fara hús úr húsi og tala um það að hér vanti einmitt almennar leikreglur. Það sé einmitt það sem skilji á milli hennar og hinna; hún vilji setja almennar leikreglur en það hafi hinir ekki gert. Þegar menn lesa grein prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar þá skilja menn betur en áður af hverju Ingibjörg Sólrún er hætt að ræða stjórnmálin en farin að auglýsa það eitt að hún sé kona!