Mánudagur 21. apríl 2003

111. tbl. 7. árg.

Því hærri sem tekjur manna eru því hærra hlutfall launa sinna greiða menn í skatt. Þeir sem hæstar hafa tekjurnar greiða því ekki aðeins hærra hlutafall launa sinna til ríkis og sveitarfélaga heldur einnig flestar krónurnar. Íslenska tekjuskattskerfið er tiltölulega einfalt í samanburði við ýmis önnur þótt svonefndur hátekjuskattur flæki málið nokkuð en þeir sem fara yfir 330 þúsund krónur í tekjur þurfa að greiða hátekjuskattinn eftir á.

Nú stendur yfir umræða um hvort flækja eigi skattkerfið með því að taka upp ný skattþrep og nota skattkerfið í auknum mæli til tekjujöfnunar. Hingað til hafa menn álitið heppilegast að halda skattkerfinu að mestu fyrir utan tilraunir til tekjujöfnunar enda hafa menn aðrar leiðir til að rétta hlut þeirra sem minnst hafa. Ýmsum bótakerfum, barnabótum, vaxtabótum, örorkubótum, ellilífeyri, atvinnuleysisbótum svo eitthvað sé nefnt er ætlað að létta undir með fólki og koma í veg fyrir að menn standi slyppir og snauðir. Flest eru þessi kerfi tengd launum þannig að þeir sem lægstu launin hafa fá hæstu bæturnar. Þau leiða með öðrum orðum til tekjujöfnunar. Frá þessu er að vísu ein undantekning en bætur til foreldra í foreldraorlofi eru þeim ósköpum gæddar að hæstu bæturnar fara til tekjuhæstu foreldranna!

Þau eru því næg úrræðin til tekjujöfnunar þótt skattkerfinu sé ekki blandað meira í þau mál en orðið er. Ef menn vilja fara inn á þá braut með þrepaskiptingu skattkerfisins verða menn í auknum mæli að greiða skatta sína ári eftir að tekna er aflað. Þetta getur valdið mönnum með sveiflukenndar tekjur vandræðum. Sjómenn og margir iðnaðarmenn eru í uppgripum eitt árið en ládeyðu það næsta. Fólk sem vinnur myrkranna á milli áður en það heldur til náms getur setið uppi með háar skattskuldir ef þrepum verður fjölgað í skattkerfinu.

Fólk almennt á svo ekki að þurfa að vera sífellt að velta því fyrir sér í hvaða skattþrepi það lendir ef það leggur örlítið meira á sig.

Páskaeggjagetraun Vefþjóðviljans lauk á laugardaginn. Vinningshafar eru Hjalti Baldursson Reykjavík, Inga Birna Albertsdóttir Höfn, Ragna Kemp Reykjavík, Sigurður Vilhelmsson Vestmannaeyjum og Vífill Harðarson Hafnarfirði. Hafa þeir verið leystir út með páskaeggi eða konfektkassa. Vefþjóðviljinn þakkar þeim er tóku þátt.