Fagnið ekki yfir því, að menn hrósa yður, því yður kynni að henda hið sama og Heródem, hvern engillinn sló, af því hann gaf ei Guði dýrðina heldur fagnið af því, ef safnaðir yðar leiðréttast, ef þér með kristilegu dæmi og röksamri kenningu leiðið nokkurn á Guðs veg, svo að þér séuð vissir um, að þeir með yður og þér með þeim munuð guðsríki erfa. Gleðjist af þessu, því til þess eruð þér settir. Þar í eiga allir yðar atburðir, allir sálar og líkamans kraftar að reyna sig og ekki til að útvega hrós málsnillinnar hjá mönnum, því eigi gagnaði það hinum vondu fariseis, þótt Kristur segði, að menn skyldu gjöra eftir öllu því, sem þeir töluðu, og ei að síður voru þeir blindir, blindra leiðtogar, hræsnarar, eiturormar og nöðrukyn. Því kalla ég ekki þann vera hinn besta prest, sem hefur hið mesta alþýðulof af sinni talsgáfu, heldur þann, sem hefur hina bestu tilheyrendur og best til himnaríkis uppfrædda, sem elski Guð og náungann og varðveitti sjálfa sig flekklausa frá heimi þessum. |
– Jón Vídalín, predikun á Jónsmessu baptistae, fyrst gefin út á Hólum í Hjaltadal 1718. |
Þ að eru nær þrjár aldir frá því mestur predikari íslenskrar kristni sá ástæðu til að taka fram að hann mæti presta sína ekki eftir alþýðulofi þeirra heldur öðrum atriðum. Skrumarar eru sem sagt ekki nýir af nálinni í prestastétt; gappresturinn við alþýðuskapið, þessi sem ætíð segir það eitt sem hann hyggur fjöldann vilja heyra, er ekki afkvæmi offjölmiðlunar og pópúlisma síðustu áratuga. „Fagnið ekki yfir því að menn hrósa yður“ segir meistari Jón og segir „ekki þann vera hinn besta prest, sem hefur hið mesta alþýðulof af sinni talsgáfu“. En þó vinsældapresturinn sé ekki nýkominn í heiminn, þá hefur vegur hans vaxið undanfarin misseri þegar fleiri og fleiri prestar reyna sitt ítrasta að falla í kramið og vera „í takti við tíðarandann“. Vei þeim presti sem ekki spilar með í þeim leik. Hann er „úr takti við samtíðina“. Slíkur prestur er „aftur úr öldum“, eins og það er stundum orðað og þá sennilega án þess að það sé athugað að sennilega mætti segja það sama um þann Guð og prestum mun þó ætlað að reka erindi fyrir hér á jörðu. Því hver er aftar úr öldum en sá sem var í öndverðu, er í dag og verða mun per secula seculorum, eins og flestir prestar munu játa?
En sem sagt, sú tíð sem nú er, hún á sína pópúlistapresta af þeirri tegund sem Jóni Vídalín mislíkaði. Hvenær sem hitamál kemur upp í landinu þá má vænta þessara hempukempna, jarmandi í útvarpspredikunum eða sem lokanúmer á útifundum. Út af þeim ganga svo frasar samtíðarinnar hverju sinni. Þeim er á móti hrósað í fjölmiðlum, þeir þykja mannlegir og með fingurinn á púlsinum, prestar nýja tímans; einmitt þeir menn sem kirkjan þarf á nýrri öld. Annað en hinir sem næstum aldrei fást til að taka undir jarmið, enda uppnefna fjölmiðlamenn slíka forngripi iðulega „svartstakka“, og er þar vísað til þeirra sveita sem eitt af afmælisbörnum dagsins hafði í morðverkum fyrir sig fyrir sextíu árum eða svo.
Einn þeirra presta sem nokkuð leggur sig eftir tískustraumum – þó hann gangi þar vissulega ekki ætíð jafn langt og sumir félagar hans – er ekki ómerkari prestur en biskupinn yfir Íslandi, Karl Sigurbjörnsson. Biskup er alltíður gestur í fjölmiðlum og er þar margt eftir honum haft, misjafnlega skynsamlegt. Karli er tíðrætt um „græðgi“ annarra og segir að „við á Vesturlöndum höfum selt sál okkar fyrir grautarskál velsældarinnar og græðginnar“ eins og hann orðar það svo skáldlega. Jafnframt þessu hefur biskup greint frá þeirri sannfæringu sinni að það sé eitt lögmál viðskipta að eins ágóði hljóti að vera annars tap. Slíkar kenningar biskups eiga greiða leið í fjölmiðla sem þykjast aldeilis hafa komist í feitt þegar slíkur kennimaður tekur viðskiptalífið á beinið. Um þessháttar málflutning Karls Sigurbjörnssonar hafa ýmsir leyft sér að segja nokkur kurteisleg orð en kannski verður biskup þessi ekki svo auðveldlega sigraður með venjulegum hagfræðilegum athugasemdum. En hugsanlega sér biskup 21. aldar sér fært að læra nokkuð af þeim sem mestur er allra fyrirrennara hans. „Þegar einum gengur í vil og hans lukka er þér þó enginn afdráttur, en þitt hjarta gremst yfir því og þú ert rangeygður af hans velgengni, munt þú þá fyrir myrkri þinnar öfundar geta ratað þann veg, sem Guðs börn feta eiga inn til lífsins?“ spurði Jón Vídalín og talar hér sem oftar af meira viti en sumir þeir sem síðar hafa farið með embætti hans.
Og nú er biskupinn yfir Íslandi kominn í baráttuna fyrir komandi alþingiskosningar. „Ha?“ spyr nú einhver, „Karl hefur ekki sagt orð í kosningabaráttunni!“. Og þar liggur einmitt hundurinn grafinn, svo einkennilega sem það kann að hljóma; að þessu sinni er það vandleg þögn biskups sem því miður verður að skoðast sem þátttaka í kosningabaráttu eins stjórnmálaflokkanna. Á dögunum varð sá atburður að tiltekinn frambjóðandi Samfylkingarinnar, svo kallað „forsætisráðherraefni“ flokksins, lýsti því yfir að forysta stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar hefði „alltaf“ haft þann sið að „hamast á“ biskupi Íslands, þegar biskupinn talaði ekki eins og forystu þessa flokks þóknaðist. Engin dæmi voru nefnd um þennan hamagang, sem ekki var von, en þegar fjölmiðlar spurðu biskupinn um sannleiksgildi þessara einstæðu fullyrðinga, þá sagðist hann einfaldlega ekkert vilja tjá sig.
Nei, hans heilagleiki ætlar ekkert að segja um þessar ásakanir. Fyrir honum mega þær eins vel standa og standa ekki. Fyrir honum má það alveg standa ómótmælt að óskilgreind forysta eins stjórnmálaflokks hafi alltaf hamast á honum. Hvernig er það, í hverju hefur þessi hamagangur falist? Það er nú ekkert smávegis sem verið var að bera á menn; svokallað „forsætisráðherraefni“ fullyrti að menn hefðu hvorki meira né minna en „alltaf hamast á“ sjálfum biskupnum þegar hann vogaði sér að segja eitthvað annað en forystunni þóknaðist! Hver getur fundið þessum ótrúlegu ásökunum stað í raunveruleikanum? Hefur ríkisstjórn landsins kannski reynst þjóðkirkjunni illa? Er það kannski misskilningur að ríkisstjórnin hafi þvert á móti fært þjóðkirkjunni nær öll völd um eigin mál? Hefur nokkur ríkisstjórn ýtt meira undir vald nokkurs biskups? Er það þá kannski rangt líka að ríkisstjórnin hafi haft forgöngu um það að efnt var til svo veglegrar hátíðar þegar minnst var þúsund ára kristni á Íslandi að sumum þótti of rausnarlega gert? „Alþingi og ríkisstjórn Íslands sáu til þess að mikið tilefni nýttist til fullrar sæmdar“ skrifaði merkur maður í Morgunblaðið að kristnihátíð lokinni, en það er þá kannski misskilningur hjá dr. theol. Sigurbirni Einarssyni.
Nei, eins og aðrar ásakanir „forsætisráðherraefnis“ Samfylkingarinnar, þá er það út í hött að forysta nokkurs stjórnmálaflokks annars en ásatrúarfélagsins hafi hamast á biskupnum yfir Íslandi. En engu að síður kýs biskupinn að þegja sem steinn. Af hverju ætli það sé? Nú er það alkunna að meðal nánustu samverkamanna núverandi biskups er einn af frambjóðendum Samfylkingarinnar, Einar Karl Haraldsson að nafni, en Einar Karl var einmitt einn helsti ráðgjafi Karls þegar hann sóttist eftir biskupstign um árið. Vakti hinn gamli Þjóðviljaritstjóri nokkra athygli þegar hann fylgdi biskupsefninu á samkomur kirkjunnar um landið þegar kosningabarátta sr. Karls stóð yfir. Og nú þegar Einar Karl berst fyrir þingsæti í Reykjavík gerist það að flokkur hans ber fram gersamlega órökstuddar ásakanir á keppinauta sína, en biskup lætur sér sæma að reyna að veita þeim einhvern trúverðugleika með þögn sinni. Og þegar það bætist við að umræddur Einar Karl er kunnur „almannatengslamaður“, er þá við öðru að búast en menn þykist hér sjá hannaða atburðarás?
Og talandi um Einar Karl, há embætti og hannaða atburðarás. Það gerðist líka á dögunum að fréttamenn voru boðaðir á forsetasetrið á Bessastöðum til að verða vitni að því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og fyrrum fjármálaráðherra, tók við eintaki af bók Hörpu „Njáls“ um „fátækt á Íslandi“, og við það tækifæri hélt Ólafur Ragnar Grímsson eina af ræðum sínum og Samfylkingarinnar um fátæktina sem þau sjá því frekar sem kaupmáttur launa hækkar. Nú gerist það stundum að útgefendur fá forsetann til að taka við „1. eintaki“ af bókum sem þeir eru að gefa út, og fá þannig auglýsingu í öllum fréttatímum, því alltaf virðist íslenskum fjölmiðlamönnum þykja fréttnæmt að forseti Íslands fái senda bók. En hvernig er það, eru ekki margar vikur síðan bók Hörpu kom út? Voru ekki nokkrar vikur síðan hún var kynnt með viðhafnarviðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins? Af hverju var allt í einu efnt til athafnar á Bessastöðum löngu síðar? Er öllum fjölmiðlamönnum Íslands ofviða að leggja tvo við tvo og fá út fjóra? Sér enginn fjölmiðlamaður það að hvorki forseti Íslands né biskup hyggjast mótmæla því að þau embætti, sem þeim hefur verið trúað fyrir, séu notuð blygðunarlaust í þágu kosningabaráttu Samfylkingarinnar og „forsætisráðherraefnis“ hennar?
Jæja, yfir að öðru. Í dag er páskadagur, helgasta hátíð kristinna manna, og því óhætt að ljúka helgarsproki á óvenjulegum nótum. Meðal þess sem ríkið og þjóðkirkjan hafa staðið saman að undanfarið er vegleg ritröð, Kirkjur Íslands, sem hóf göngu sína fyrir rúmu ári. Hafa nú komið út 3 bindi í þessari röð, þar af tvö í fyrra. Í öðru bindi er fjallað um fjórar kirkjur, Hraungerðis-, Ólafsvalla-, Stóra-Núps- og Villingaholtskirkju í Ásnesprófastdæmi og sagt frá búnaði þeirra og byggingarlist. Í bókinni er meðal annars sýnd mynd af altaristöflu í eigu Ólafsvallakirkju og Þorsteinn Guðmundsson málaði árið 1850. Sýnir hún Maríu Magdalenu og Maríu guðsmóður við kross Krists á Golgata og undir myndina eru rituð orð úr 53. kafla Esaja; „Hann bar vor sár og lagði á sig vor harmkvæli“. Er vel við hæfi að ljúka helgarsproki páskadags í þeim kafla: „Fyrir þær mannraunir, sem hann leið, skal hann njóta gnóglegra launa. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti þjón minn, marga réttláta gjöra, því hann bar þeirra byrðar.“
Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska.