Fimmtudagur 24. apríl 2003

114. tbl. 7. árg.

Það er á mörkunum að það sé hægt að segja um Samfylkinguna að hún segi eitt í dag og annað á morgun. Stundum virðist hún nefnilega ná því að vera enn sneggri en það að skipta um stefnu og áherslur, allt eftir því hvernig vindar blása. Á dögunum boðaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þannig „fjölþrepa skattkerfi“. Hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar varð „fjölþrepa skattkerfi“ mál málanna í þessum kosningum eins og þeim síðustu – í örstutta stund. Fyrir nokkru gaf Samfylkingin út heila bók til að gefa þá mynd af flokknum að hann hefði rannsakað „Evrópumálin“ í þaula og fundið ýmis merkileg rök fyrir því að Íslandi yrði komið inn í Evrópusambandið. Í formála bókarinnar skrifaði ekki ómerkari maður en formaður Samfylkingarinnar (Össur Skarphéðinsson alþingismaður) að staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu væri hvorki meira né minna en „eitt stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála í nútíð og náinni framtíð.“ Síðan hefur það hins vegar gerst að fylgi við aðild hefur minnkað mjög í skoðanakönnunum og eftir að það gerðist hefur Samfylkingin vart minnst á þetta „stærsta viðfangsefni“ nema helst til að gera lítið úr því.

Árum saman hömuðust kratar á því að það væri ófrávíkjanlegt réttlætismál að útgerðarfyrirtækin í landinu greiddu svokallað auðlindagjald. Á endanum ákváðu stjórnvöld því miður að fallast á þá kröfu, til þess að reyna að skapa einhverja sátt um fiskveiðistjórnunina. En þá hætti Samfylkingin að vilja auðlindagjald. Þá varð skyndilega að „fyrna“ aflaheimildirnar – sem er undarlegt hugtak yfir þá aðgerð að gera eitthvað upptækt. Sama gildir um flest önnur mál. Samfylkingin er eini flokkurinn sem getur náð því að vera bæði með og móti sömu virkjuninni, verið á móti henni í undirbúningi, snúist svo að mestu leyti til fylgis við hana þegar skoðanakannanir sýna að það gæti gefist betur. Þingmenn flokksins höfðu jafnvel lagt til að Íslendingar staðfestu þá útgáfu Kyoto-bókunarinnar sem hefði ekki aðeins útilokað byggingu álvers á Reyðarfirði og þar með Kárahnjúkavirkjun heldur einnig aðrar álversframkvæmdir síðustu ára.

Lítið dæmi um þennan furðulega stjórnmálaflokk birtist um daginn. Ekki að það skipti svo miklu máli, en það segir dálitla sögu um þennan flokk. Samfylkingarmenn voru að gefa út lítinn bækling sem er ætlað að fá ungt fólk til fylgis við Samfylkinguna. Bæklingurinn er óvenjulega skýrt dæmi um það hversu hægt er að koma mörgum hæpnum fullyrðingum fyrir í fáum orðum ef að vanir menn véla um. En allt er reynt til að höfða til unga fólksins og sannfæra það um að nú sé Samfylkingin málið. Meðal þess sem á að ganga í unga fólkið er til dæmis krafan „Bjór og léttvín í matvöruverslanir“, og það er ágæt krafa. Nokkrum dögum áður leituðu Samtök verslunar og þjónustu til stjórnmálaflokkanna og spurðu þá nokkurra spurninga. Ein spurningin hljómaði nákvæmlega svona: „Telur flokkurinn að halda eigi áfram einkasölurekstri ríkisins á áfengi?“ Og Samfylkingin svaraði afdráttarlaust. „Já.“

En unga fólkið, það fær hins vegar bækling þar sem kemur fram að ungir Samfylkingarmenn vilji að matvöruverslunum verði leyft að selja bjór og létt vín. Unga fólkinu er ekki sagt að það sé aðeins einn stjórnmálaflokkur sem hafi lýst því yfir að hann vilji leggja ÁTVR niður og selja eignir hennar. Og að þessi flokkur sé reyndar Sjálfstæðisflokkurinn en ekki Samfylkingin. Og unga fólkinu er ekki sagt að Samfylkingin hafi verið að lýsa því yfir að hún vilji að ríkið eigi áfram að hafa einkarétt á áfengissölu á Íslandi.

Þetta er Samfylkingin í hnotskurn.

Nóg um Samfylkinguna. Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegs sumars.