Mánudagur 31. mars 2003

90. tbl. 7. árg.
„Fjárútlát ríkisins sem koma til vegna fæðingarorlofs, koma til baka í auknum hagvexti auk þess sem þau draga úr launamun kynja.“ 
 – úr drögum að ályktun 35. landsfundar Sjálfstæðisflokksins um jafnréttismál.

Það má reyna að telja fólki trú um ýmislegt. En það tekst ekki alltaf. Nánustu aðstandendur svonefndra laga um foreldra- og fæðingarorlof í Sjálfstæðisflokknum reyndu að koma ofangreindri speki inn í ályktanir landsfundar flokksins sem haldinn var um helgina. Þetta virðist þó hafa mistekist ef endanleg útgáfa ályktunarinnar um jafnréttismál er skoðuð á vef flokksins.

En þótt þessari einstæðu lofgjörð um mestu velferðarkerfisvæðingu Íslandssögunnar hafi verið hafnað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er ekki þar með sagt að hún verðskuldi ekki nánari skoðun. Því ef hún ætti við rök að styðjast væri hér komin afar þægileg leið til að tryggja hagvöxt. Það þyrfti ekki annað en að ausa nógu miklum fjármunum í félagslegt kerfi fyrir fullfrískt og forríkt fólk og okkar biðu gull og grænir skógar. Með nýjum lögum um foreldra- og fæðingarorlof á árinu 2000 var nefnilega í fyrsta sinn í sögu landsins ákveðið að láta félagslegar bætur fylgja launum manna með þeim hætti að því hærri sem launin eru því rausnarlegri eru bæturnar sem menn fá. Þegar frumvarpið um orlofið var í skyndimeðferð á Alþingi vorið 2002 benti Andríki í skýrslu á nokkra helstu galla þess sem nú virðast vera að verða fleirum ljósir. Skýrsluna má lesa má hér.

Á þessu ári fá til dæmis nýbakaðir foreldrar sem hafa samtals 1 milljón króna á mánuði í laun (500 þúsund hvort) 3,6 milljónir króna frá Tryggingastofnun ríkisins í velferðarstyrk. Þetta er ekkert fjarstæðukennt dæmi, því á því eru engin takmörk hvað hafa má út úr velferðarkerfinu með foreldraorlofi. Íslendingar sem slá í gegn sem forritarar, fótboltamenn eða söngvarar og hafa rífandi tekjur í 10 mánuði áður en þeir eignast barn eiga nú lögum samkvæmt rétt á því að fá 80% af því sem þeir áður öfluðu á meðan þeir eru í fæðingarorlofi.

Poppstjarna sem hefur 800 milljónir króna í tekjur á árinu áður en eignast barn, á kröfu á ríkið um að fá 320 milljónir króna á því sex mánaða tímabili sem hún er í fæðingarorlofi. Barnsfaðir hennar var heimavinnandi á þessum tíma og fær því samtals 99 þúsund krónur þá 3 mánuði sem hann tekur í orlof eins og annað heimavinnandi fólk sem eignast barn.

Eins og allir sjá er jú búið að „jafna réttinn til fæðingarorlofs“.