Helgarsprokið 30. mars 2003

89. tbl. 7. árg.

Hvar er annars listinn yfir þá sem studdu R-listann og Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar? Hvar er opna bókhaldið sem hefur verið lofað hvað eftir annað? Nú á dögunum hélt Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar því fram í sjónvarpsfréttum að fara mætti inn á heimasíðu Samfylkingarinnar og skoða opna bókhaldið. Á heimasíðu hennar má hins vegar aðeins finna einhvers konar yfirlit fyrir árið 2000 og hluta ársins 2001. Hvergi er að finna neina sundurliðun yfir stuðningsmenn flokksins fyrir þingkosningarnar 1999 sem talsmaður Samfylkingarinnar hafði lofað sérstaklega nokkrum dögum fyrir kosningarnar. Á árinu 2000 er hins vegar yfir 1 milljón króna vegna stuðningsloforða vegna kosninganna 1999 afskrifuð. Engin grein er gerð fyrir því hverjir sviku loforð sín eða hverjir efndu þau sem eru væntanlega fleiri en þeir sem þurfti að afskrifa. Menn eru með öðrum orðum engu nær um hverjir voru helstu stuðningsmenn Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar þegar hún eyddi flokka mest í kosningarbaráttuna. Því síður vita menn hverjir eru helstu stuðningsmenn hennar um þessar mundir.

„Og slíkar reglur gagnast lítið gegn þeirri aðferð sem þýskir jafnaðarmenn hafa beitt, en þeir hafa stofnað sérstök fyrirtæki sem ekki hafa annan tilgang en að styrkja þýska jafnaðarmenn. Fyrirtæki sem styðja kratana geta svo einfaldlega greitt til þessa stuðningsfyrirtækis sem greiðir svo væna summu til Jafnaðarmannaflokksins.“

Hvenær ætla fjölmiðlamenn að gera gangskör að því að fá aðgang að þessu „opna bókhaldi“ og lista yfir þá sem létu fé af hendi rakna til R-listans og Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar til þings og sveitastjórna? Forystumenn stjórnmálaflokks sem hafa af fyrra bragði gefið slík loforð aftur, aftur og aftur, eiga ekki að komast upp með efna ekki þau loforð möglunarlaust, jafnvel þótt það sé Samfylkingin sem á í hlut.

Margir ímynda sér að hinir eða þessir kostir séu við það að bókhald stjórnmálaflokka verði birt á torgum. Þeir kostir eru stórlega orðum auknir. Það hafa menn reynt sem sett hafa sérstök lög um fjármál stjórnmálaflokka í ýmsum löndum. Það liggur ekkert fyrir að þar sé minni spilling en í þeim löndum sem engin slík lög hafa. Raunar hefur Ísland verið talið eitt það land þar sem hvað minnsta spillingu er að finna þótt slík lög séu ekki til staðar. Og þótt slík lög séu sett er ekki þar með sagt að allt sé slétt og fellt og engin króna undir borðið. Í Bandaríkjunum hafa menn áratugum verið að burðast við að setja lög af þessu tagi og jafnharðan og ný lög hafa verið sett byrja þeir sem voru helstu hvatamennirnir að þeim að rekja ókosti þeirra og undankomuleiðir þeirra sem kæra sig ekki um að flíka því opinberlega hverja þeir styðja. Hvernig ætla menn til dæmis að fylgjast með öllum þeir aragrúa stjórnmálaflokka og samtaka sem íslenskir vinstrimenn stofna á nær hverju ári og leggja raunar oftast niður þegar allt er komið í upplausn og þrot, fjármálin og hugmyndafræðin þar á meðal?

Flestir hljóta að viðurkenna að afar auðvelt yrði að fara fram hjá reglum sem settar yrðu um fjármál stjórnmálaflokka. Slíkar reglur myndu til dæmis kveða á um að birt yrði opinberlega ef tiltekið stórfyrirtæki styrkti stjórnmálaflokk með gríðarlegum fjárframlögum, framlögum sem í raun réðu úrslitum um fjárhagsstöðu þess flokks. Gott og vel. En slíkar reglur segðu ekkert um það ef stórfyrirtækið færi þess í stað að halda úti fjölmiðli á eigin reikning til að reka misgeðfelld erindi forystu þessa stjórnmálaflokks. Slíkar reglur segðu ekkert um það þegar hin og þessi hagsmunasamtök verja fé og starfsmönnum til baráttu sem jafnan er stíluð inn á að gagnast ákveðnum stjórnmálaöflum og sérstaklega gegn öðrum. Og slíkar reglur gagnast lítið gegn þeirri aðferð sem þýskir jafnaðarmenn hafa beitt, en þeir hafa stofnað sérstök fyrirtæki sem ekki hafa annan tilgang en að styrkja þýska jafnaðarmenn. Fyrirtæki sem styðja kratana geta svo einfaldlega greitt til þessa stuðningsfyrirtækis sem greiðir svo væna summu til Jafnaðarmannaflokksins. Eina framlagið sem birt er opinberlega er svo hin uppsafnaða greiðsla frá stuðningsfyrirtækinu en enginn fær að vita hvaðan hún kom.

„En við hættum ekki að hafa reglur þó einhverjir brjóti þær!“ segir eflaust einhver. „Ekki hættum við að hafa umferðarlög þó sumir fari um á rauðu ljósi ef þeim hentar“ segir annar. Ja það er nú alltaf eins og á það er litið. Þó einn og einn glanni valdi því ekki að það eigi að afnema umferðarlögin, þá á allt annað við um reglur um stjórnmálaflokka. Umferðarlögin koma að gagni en ekkert liggur fyrir um að sérstök lög um bókhald stjórnmálaflokka umfram önnur samtök kæmu að gagni og reynsla annarra sýnir hið gagnstæða. Ef auðvelt verður að fara á svig við reglurnar ef menn eru nægilega ósvífnir þá munu þær reglur ýta undir ósvífna stjórnmálamenn sem gefa lítið fyrir reglur og heiður en gera jafnan það sem þeir telja gagnast prívatframa sínum best hverju sinni. Hinir ærlegri munu sitja eftir. Það yrði það eina sem fengist úr „opnum og gagnsæjum reglum“ sem ákveðin tegund stjórnmálamanna segist ákaft vilja koma á. Sú krafa segir kannski aðra og greinarbetri sögu um þá en þeir kysu.