Þriðjudagur 1. apríl 2003

91. tbl. 7. árg.

Snökt, snökt. Æ, hann er svo góður. Þarna tók hann sér frí frá erilsamri dagskrá frambjóðandans til að vera sjálfboðaliði hjá Mæðrastyrksnefnd. Og þrátt fyrir að hann hafi þegar að því búnu farið í viðtal við sjálft Fréttablaðið um þetta málefni, þá er það ekki til marks um það að Ágúst Ólafur Ágústsson sé sýndarmennskan holdi klædd. Nei hann er hreint góðmenni sem lifir fyrir þá sem minna mega sín. Og hann fór bara í viðtal við Fréttablaðið til að auglýsa Mæðrastyrksnefnd en ekki sjálfan sig. Í rauninni ætlaði hann fyrst að gerast sjálfboðaliði hjá Kvennaathvarfinu en því miður var verið að bera Kvennaathvarfið út á götuna nú á dögunum, svo það náði ekki lengra að þessu sinni. En eftir fjögur ár verða þær búnar að finna eitthvað annað blessaðar og þá ætlar Ágúst Ólafur að vera hjá þeim einn eftirmiðdag

Og heilagur Ágústínus er ekki ánægður með hvernig hið opinbera fer með Mæðrastyrksnefnd. „Styrkir sem Mæðrastyrksnefnd fær hjá opinberum aðilum eru smánarlegir miðað við allt það fé sem lagt er í ný sendiráð“ segir hann í Fréttablaðinu, enda liggur sá samanburður beint við. Og þegar horft er til þess að ríkið ákvað fyrir nokkru að veita Mæðrastyrksnefnd tveggja milljóna króna stuðning en borgaryfirvöld voru á hinn bóginn að lækka stuðning sinn við nefndina um fjórðum, þá þarf enginn að efast um að Ágúst Ólafur sé ánægður með meirihlutann á Alþingi en að sama skapi ósáttur við borgaryfirvöld.

Og af því Ágúst Ólafur hugsar aðeins um þá sem minna mega sín, en veltir eigin framamöguleikum ekki einu sinni fyrir sér, þá heldur hann mjög á loft þeirri staðreynd að á undanförnum árum hefur kaupmáttur á Íslandi hækkað um 33 %, sem er langt yfir þeim 13 % sem er meðalhækkun OECD landanna. Og það sem meira er, og Ágúst Ólafur þreytist ekki á að nefna, að kaupmáttur lægstu launa hefur hér hækkað um hvorki meira né minna en 50 %. Þetta þykir Ágústi Ólafi mjög gott og ólíkt betra ástand en þegar síðast sat vinstri stjórn að völdum á Íslandi, en í tíð síðustu velferðarstjórnar rýrnaði kaupmáttur allra launa og bóta.

Eða hvað? Er það kannski misskilningur að Ágúst Ólafur Ágústsson veki athygli á þessum staðreyndum? Er það kannski þannig að þessa dagana fari hann á milli funda og sjónvarpsþátta og tali af ofsa um nauðsyn þess að losna við þá ríkisstjórn sem ríkt hefur á mesta kaupmáttaraukningarskeiði lýðveldissögunnar? Og vilji í hennar stað fá nýja vinstri stjórn? Getur verið að Ágúst Ólafur Ágústson, vinur láglaunafólksins, geri ekkert með þá staðreynd að kaupmáttur launa hefur vaxið á hverju einasta ári, þau átta ár sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa setið? Getur verið að nokkur maður, sem ber hag láglaunafólks fyrir brjósti, vilji í raun að vinstri flokkarnir taki að nýju við völdum á Íslandi? Og skjótist svo til Mæðrastyrksnefndar einn eftirmiðdag og svo beint í blaðaviðtal?