Fimmtudagur 27. mars 2003

86. tbl. 7. árg.

ESBÖssur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur nú enn einu sinni tekið af skarið og lagt línurnar fyrir alþingiskosningarnar í vor. Til þess að taka fyrir allan misskilning lýsti hann því yfir í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi, að Evrópumál yrðu ekki helsta mál kosninganna. Þetta eru afar mikilvægar upplýsingar fyrir kjósendur, enda eru ekki margir mánuðir síðan þessi sami Össur útskýrði fyrir þjóðinni að meginlínurnar í íslenskri stjórnmálabaráttu myndu ráðast af afstöðu manna til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Samfylkingin efndi til frægrar póstkosningar á liðnu hausti til að ákveða stefnu sína í þessum málum og í kjölfar þeirrar merku stefnumótunar upphófst mikill söngur um að kjósendur þyrftu að taka afstöðu til þess hvort þeir vildu búa hér við svokallað Evrópuverð á matvælum, Evrópuvexti í bankakerfinu og í heild hvort kjósendur vildu missa af þeirri merku þróun í framfaraátt, sem ætti sér stað innan Evrópusambandsins.

Nú er allt annað uppi á teningnum hjá Össuri Skarphéðinssyni. Nú eru Evrópumálin allt í einu ekki svona mikilvæg. Og hvað skyldi hafa breyst? Hefur Evrópusambandið breyst? Nei, ekki tiltakanlega. Hafa einhverjar nýjar upplýsingar komið fram um samningsskilmála Íslands í viðræðum við ESB? Nei, ekki svo vitað sé. Það eina sem virðist hafa breyst frá því Evrópumálin voru mikilvægasta kosningamálið í huga Össurar er að fylgi við aðild Íslands að ESB hefur minnkað verulega í skoðanakönnunum, ekki síst í kjölfar þess að ESB hefur sýnt Íslendingum sitt rétta andlit í viðræðum við Íslendinga og EFTA-þjóðirnar þar sem farið hefur verið fram á 38 föld framlög Íslendinga til þróunarsjóða sambandsins. Spenningur almennings fyrir aðildarumsókn hefur sem sagt dregist saman samkvæmt skoðanakönnunum og eins og svo oft áður fylgir Samfylkingin á eftir og breytir áherslum sínum í samræmi við það. Samfylkingin bærist sem fyrr eins og lauf í vindi og verði einhver minnsta breyting á afstöðu svarenda í skoðanakönnun IBM, IMG, Félagsvísindastofnunar, Fréttablaðsins eða DV, þá er formaður hennar þegar kominn í fjölmiðla til að lýsa breyttum áherslum Samfylkingarinnar. Traustvekjandi, ekki satt?